Birkir sleit hásin í september í fyrra en virtist á góðri leið með að snúa aftur á völlinn innan tíðar þar til að sama hásin slitnaði á þriðjudaginn.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, staðfesti meiðsli Birkis í samtali við íþróttadeild Vísis.
Birkir er öflug, örvhent skytta sem fór á kostum á síðustu leiktíð, þar til mótið var blásið af vegna kórónuveirufaraldursins. Hann hafði þá skorað 108 mörk í 20 leikjum í Olís-deildinni og vakið athygli erlendra liða.
„Mig hefur alltaf langað að spila erlendis og set stefnuna á það,“ sagði Birkir í viðtali við Vísi í nóvember 2019. Hann hafði þá hrist af sér þrjú fingurbrot og mjaðmarmeiðsli, og aldrei spilað betur.
Birkir náði hins vegar ekkert að spila á þessari leiktíð áður en hann sleit hásinina á æfingu í fyrra skiptið.
Nú er ljóst að Afturelding verður án Birkis út þessa leiktíð og óvíst er hvenær Birkir getur snúið aftur til æfinga og keppni. Afturelding er í 6. sæti Olís-deildarinnar nú þegar 13 umferðum af 22 er lokið.