CNN segir frá því að kvörtun Meghan til ITV-sjónvarpsstöðvarinnar hafi ekki snúið að persónulegum árásum Morgans á hana sjálfa, heldur frekar hvaða áhrif ummælin kunni að hafa á aðra og hvernig þau hafi gert lítið úr mikilvægi geðheilbrigðismála.
Morgan hætti í gær sem þáttastjórnandi í Good Morning Britain á ITV vegna ummæla sinna um Meghan. Hann ítrekaði í morgun að hann sagðist standa við orðin.
Meghan, the Duchess of Sussex made a formal complaint to British broadcaster ITV relating to Piers Morgan's comments about her, following the Sussexes' interview with Oprah, CNN has learned. https://t.co/AFLpKn7L4N pic.twitter.com/ALt8vPL5Rd
— CNN (@CNN) March 10, 2021
Ummæli Morgans sneru að orðum Meghan í viðtali Opruh Winfrey við Meghan og eiginmann hennar, Harry Bretaprins þar sem hún sagðist meðal annars á tímabili hafa verið í sjálfsvígshugleiðingum vegna rasísks andrúmslofts innan bresku konungsfjölskyldunnar.
Piers Morgan sagði í þættinum Good Morning Britain á mánudagsmorgun að hann tryði ekki orði af því sem Meghan hefði sagt í viðtalinu.
„Mér finnst þessi árás hennar á konungsfjölskylduna fyrirlitleg,“ sagði Morgan meðal annars.
Fréttir bárust af því í gær að Ofcom, fjölmiðlaeftirlits Bretlands, hafi borist rúmlega 41 þúsund kvartanir vegna ummæla Morgan.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218.