Dómsmálaráðherra hefur verið harðlega gagnrýndur í dag eftir að Fréttablaðið greindi frá því í morgun að hún hefði falið Jóni Steinari að skoða úrbætur í meðferð sakamála.
Í fréttinni kom fram að verkefnið væri í mótun en snéri að tillögum um leiðir til að stytta málsmeðferðartíma í refsivörslukerfinu.
Gagnrýnin hefur aðallega snúist um ýmis ummæli sem lögmaðurinn hefur látið falla um mál er snúa að kynferðisbrotum en hann hefur meðal annars talað gegn þeirri þróun að slakað sé á sönnunarkröfum og aukin áhersla lögð á vitnisburð brotaþola.
„Ég get alveg sett mig í þeirra spor,“ segir Áslaug Arna, spurð að því hvort hún skilji afstöðu þeirra kvenna sem kunna að setja spurningamerki við valið á Jóni Steinari. „Verkin mín í þessum málum dæma sig sjálf og öll þau frumvörp og lagabreytingar, og breytingar á kerfinu, sem ég hef fylgt eftir og náð í gegn,“ bætir hún við.
Staðreynd málsins sé hins vegar sú að Jóni Steinari sé falið að skoða hvernig stytta megi málsmeðferðartímann í efnahagsbrotamálum til hagsbóta fyrir alla. Spurð að því hvort hann muni þá ekki fjalla um ofangreinda málið svarar hún hreinlega: „Nei.“
Jón Steinar hefur verið umdeildur vegna annarra skoðana sinna, svo sem á hæstarétti og niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í svokölluðu Landsréttarmáli. Ráðherra segir hins vegar reynslu hans á sviði efnahagsbrota hafa ráðið því að hann varð fyrir valinu.
Mikilvægt er að huga að leiðum til að bæta réttarkerfið, gera það skilvirkara en gæta um leið fyllstu sanngirni gagnvart...
Posted by Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir on Tuesday, March 9, 2021