Innlent

Kristján Þór lang óvinsælasti ráðherrann

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Könnunin byggir á tveimur mælingum sem voru gerðar í lok janúar og byrjun febrúar.
Könnunin byggir á tveimur mælingum sem voru gerðar í lok janúar og byrjun febrúar. vísir

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er lang óvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar samkvæmt nýrri könnun. Einungis níu prósent segjast ánægð með störf hans.

Könnunin sem Maskína gerði fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, inniheldur tvær mælingar síðan í lok janúar og byrjun febrúar. Svarendur eru 2.029.

Samkvæmt henni nýtur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra yfirburða vinsælda í ráðherrahópnum og fimmtíu og átta prósent svarenda eru ánægðir með hennar störf.

Næst koma Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, en tæpur helmingur er ánægður með þau. Heldur fleiri eru óánægðir með Svandísi, eða fjórðungur, en nítján prósent segjast óánægðir með Ásmund.

Aðrir ráðherrar Framsóknarflokksins; menntamálaráðherra og samgönguráðherra eru næst í vinsældaröðinni. Fjörtíu og þrjú prósent segjast ánægð með Lilju Dögg Alfreðsdóttur en þrjátíu og átta prósent með Sigurð Inga Jóhannsson.

Þá er ríflega þriðjungur ánægður með dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir virðist þó heldur umdeildari en Guðlaugur Þór Þórðarson, þar sem ríflega þriðjungur er jafnframt óánægður með hennar störf.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, er vinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar.Vísir/Vilhelm

Fleiri segjast óánægðir en ánægðir með störf Bjarna Benedikssonar fjármálaráðherra. Þriðjungur segist ánægður með hans störf en 43 prósent eru óánægðir.

Sama gildir um Guðmund Inga Guðbrandsson, umhverfisráðherra, og eru þar fleiri óánægðir en ánægðir, eða 28 prósent ánægðir og 37 prósent óánægðir.

Þrjátíu prósent sveranda segjast ánægðir með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra. Aðeins færri, eða 28 prósent segjast óánægðir.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, rekur lestina. Einungis níu prósent, eða tæplega einn af hverjum tíu er ánægður með hann og mun fleiri eru óánægðir, eða 64 prósent.

Könnunin inniheldur tvær mælingar, sú fyrsta var framkvæmd 21. janúar til 1. febrúar 2021 og sú seinni 5. til 12. febrúar 2021. Svarendur voru 2.029.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×