Óheftur kapítalismi leiðir til sovétkerfis auðvaldsins Gunnar Smári Egilsson skrifar 5. mars 2021 08:01 Þegar ég var að alast upp hafði fákeppni mótast á mörgum sviðum atvinnulífs en var samt í engri líkingu við það sem síðar varð. Í olíuverslun voru þrjú fyrirtæki; Olís, Esso og Shell og þannig er það að mestu enn þótt nöfnin séu önnur. Atlantsolía hefur reyndar bæst við og Costco selur bensín á nokkrum dælum við verslun sína í Garðabænum. Þrátt fyrir innkomu Costco og Atlantsolíu á markaðinn er verðið hjá stóru olíufélögunum ætíð það sama, eins og um samantekin ráð sé að ræða. Og við vitum vel að svo er. Þessi félög voru dæmd fyrir nokkrum árum eftir að sannað var að þau höfðu reglubundið samráð um verðlagningu. Á þeim tíma voru verðbreytingar með sama hætti og í dag, allir hækkuðu á sama tíma jafn mikið. Og þegar yfirborðið er það sama, er ekki djarft að álykta að undir því sé allt við það sama. Bankaeyðingin mikla Í bankaþjónustu voru nokkru fleiri fyrirtæki þegar ég var barn; Landsbankinn, Búnaðarbankinn, Iðnaðarbankinn, Samvinnubankinn, Alþýðubankinn, Verslunarbankinn og fjölmargir sparisjóðir um allt land. Á höfuðborgarsvæðinu voru Spron og Sparisjóður vélstjóra umfangsmiklir, en svo voru líka sparisjóðir í Kópavogi og Hafnarfirði. Sparisjóðurinn í Keflavík var stór og líka sá upp í Borgarfirði, svo ég dragi aðeins víðari hring um Reykjavík. Í dag eru fyrst og fremst þrír bankar á Íslandi. Þeir gleyptu flesta hinna á leiðinni, suma í rekstri en hreinsuðu upp hræin af öðrum. Það má vera að bankarnir keppist um að fá allra auðugasta fólkið í viðskipti en almenningur kannast ekki við neina samkeppni milli þeirra. Vextir er svipaðir og öll þau fjölbreytilegu gjöld sem bankarnir hafa fundið upp til að hafa fé af viðskiptafólki sínu. Og allir eru þeir reknir með stórkostlegum hagnaði. Þeir auglýsa aldrei þjónustu sína út frá verði, kynna sig frekar sem einskonar lífstílsfélög en fyrirtæki á samkeppnismarkaði og reyna að umlykja sig eftirsóknarverðri ímynd alls óskyldri bankarekstri. Allt safnast saman í þríeitt félag Fyrir hálfri öld voru tryggingafélögin nokkur; Brunabótafélagið, Vátryggingafélagið, Samvinnutryggingar, Almennar tryggingar, Andvaka, Sjóvá, Hagtrygging, Tryggingamiðstöðin, Ábyrgð, Trolle & Rothe o.fl. Tryggingastofnun ríkisins var meira að segja með slysatryggingadeild. Í dag eru það fyrst og fremst Sjóvá, Vís og TM sem selja almenningi tryggingar. Þau hafa stækkað með samruna og fitnað í fákeppninni. Eigendur greiða sér síðan stórkostlegar upphæðir í arð. Fólk getur heimsótt eitt þessara félaga og fengið tilboð í tryggingar, sem þá er vanalega lægra en þær tryggingar sem fólk borgaði áður hjá fyrra félagi. Fólk getur þá skipt um félag eða óskað eftir að fyrra félagið lækki. Sem það gerir. Síðan líða vikur og mánuðir og brátt hafa tryggingariðgjöldin hækkað á ný. Eins og hjá bönkunum er þetta ekki raunveruleg verðsamkeppni Tryggingafélögin sætta sig við minni hlutdeild á markaði með hærra verði og betri afkomu og leggja því ekki út í að lækka verð til að auka hlutdeild. Þetta er eðli fákeppni. Sigur mjólkurbúðanna Fyrir hálfri öld var fátítt að fyrirtæki væri með fleiri en eina matvöruverslun. Það var helst KEA, Kron og SS. Mest af dagvöru var keypt hjá kaupmanninum í hverfinu. Í Vogahverfinu og Langholti voru t.d. Heimakjör, Vogaver, Rangá, Holtskjör, Langholtskjör og eflaust fleiri, ég skrifa þetta upp eftir minni. Allt voru þetta fjölskyldufyrirtæki þar sem eigandinn afgreiddi sjálfur. Við hlið þessar matvörubúða voru oftast fiskbúðir þar sem eigandinn gerði að fiskinum og rétti hann yfir borðið. Og þannig voru líka apótekin, bakaríin, efnalaugarnar, blómabúðirnar, ritfangabúðirnar, tískubúðirnar og hvað eina. Það voru bara mjólkurbúðirnar sem voru hluti af keðju, þær voru reknar af Mjólkursamsölunni í Reykjavík og fóru mikið í taugarnar á fólki í Sjálfstæðisflokknum, sem sagðist vilja sjá einkaframtakið auðga mjólkursöluna og rífa hana upp úr stöðnun, fábreytni og leiðindum. Nú eru mjólkurbúðirnar horfnar en svo til öll dagvöruverslun komin undir þrjár keðjur með stöðluðu vöruúrvali, framsetningu og verðlagningu. Þar sem áður voru apótekarar hver með sitt apótek eru nú fyrst og fremst tvær keðjur í lyfsölu. Það er helst að fiskbúðirnar hafi lifað af sem normal rekstur þar sem fólk kaupir beint af eigandanum eða fjölskyldu hans. Hitt er allt meira og minna orðið að fjarstýrðum maskínum sem stýrt er út frá ákvörðunum og hagsmunum fjárfesta einhvers staðar langt í burtu. Bakaríin eru ekki bara færri og sum stór með mörg útibú, heldur hefur fjölbreytileikinn líka étist upp innan frá. Stór hluti af því sem selt er í bakaríunum er hnoðað, útbúið og fryst í Póllandi og aðeins hitað upp í því sem fólk heldur að sé raunverulegt bakarí.En mesta breytingin er sú að brauðsalan hefur flust frá mjólkurbúðum og bakaríum inn í stórmarkaði þar sem fyrst og fremst eitt stórt iðnaðarbakarí skaffar öll brauðin. Heildsalar fremja pólitískt sjálfsmorð Á bak við matvörubúðirnar eru heildsölur. Í dag eru fyrst og fremst þrjár stórar slíkar sem drottna yfir markaðnum; Ísam, Innnes og Garri. Þegar ég var að alast upp voru heildsölurnar nógu margar til að heildsalarnir væru sterkt afl innan Sjálfstæðisflokksins, karlar sem fundu til sín, reyktu vindla og þóttust vera að berjast fyrir frjálsum viðskiptum. Þeir sögðu Sambandið og kaupfélögin leiða til fábreytni og einhæfni og að öll ríkisafskipti af verðlagsmálum væri af hinu vonda. Þessir karlar unnu þessa baráttu. Ríkið tók hendurnar af stýrinu og Sambandið dó. En heildsalarnir dóu líka. Afleiðingin af stefnu þeirra var að vald og auður safnaðist á færri hendur, stóru fyrirtækin átu upp hin smærri og samkeppnin varð miklu minni en hún var á þeim tíma sem karlarnir kvörtuðu í vindlareyknum í bakherbergjum Valhallar. Nú eru það fyrst og fremst þrjár, fjórar fjölskyldur sem eiga og stjórna megninu af öllum innflutningi á neysluvöru. Tengsl þessara fyrirtækja við fáar stórar stórmarkaðarkeðjur og sú staða sem byggst hefur upp í kringum þau tengsl, risastórar róbotavæddar vöruskemmur, afsláttarkjör á flutningum og slælegt samkeppniseftirlit, veldur því að það er nánast vonlaust fyrir ný fyrirtæki að komast inn á markaðinn. Og eina lífsvon hinna smáu er að hin stóru kaupi þau svo eigendurnir sleppi út með sæmilegan sjóð til að lifa af til æviloka við verkleysi. Samþjöppun sjávarútvegsins Og talandi um pólitískt ítök innan Sjálfstæðisflokksins fyrir fáeinum áratugum; þá voru líka upp um alla veggi í Valhöll háværir útgerðarmenn víða að af landinu, karlar sem áttu kannski einn bát og saltfiskverkun eða togara og frystihús. Þótt til væru stærri fyrirtæki, sem þá voru reyndar flest samvinnu- eða bæjarútgerðir, þá var megnið að útgerð og fiskvinnslu í einkaeign í höndum margra smárra fyrirtæki. Í flestum þorpum og bæjum voru margar útgerðir, þónokkrar fiskvinnslur, frystihús eða saltverkun, netaverkstæði, smiðjur og önnur fyrirtæki sem þjónuðu sjávarútveginn. Nú eru flestar hafnir landsins tómar, útgerð og fiskvinnsla komin undir örfáar stórútgerðir. Á liðnum árum hafa hin stóru gleypt hin smærri og smátt og smátt hefur stefna stjórnvalda snúist um að verja hagsmuni hinna stóru. Og það á ekki aðeins við um hið opinbera, heldur á það einnig við um samtök útgerðarinnar, sem í dag kallast SFS. Átta manna meirihluti stjórnar þeirra samtaka eru fulltrúar fyrirtækja sem eiga tæplega 60% af kvótanum. SFS er þannig í reynd félag hinna fáu stóru, sem hafa stækkað á því að mylja undir sig hina mörgu og smáu. Og sem ætla að stækka enn meira. Hin smáu hverfa, hin stóru stækka Ég gæti haldið áfram að rekja hvernig þróun síðustu áratuga hefur leitt til fákeppni og einokunar og í raun rakið upp lýðræðislegan vefnað samfélagsins. Þar sem áður voru mörg smá einkafyrirtæki og önnur stór í almannaeigu, eru nú víðast aðeins örfá fyrirtæki sem ýmist eru í eigu örfárra eða stýrt af þeim sem eiga smærri hlut á móti lífeyrissjóðunum, en geta í skjóli forystuleysis sjóðanna farið með þessi fyrirtæki eins og þeir eigi þau. Í byggingaiðnaði voru ekki aðeins mörg einkafyrirtæki heldur líka byggingarsamvinnufélög í eigu þeirra sem ætluðu sér að búa í húsunum sem verið var að byggja og einnig umsvifamiklir opinberir og hálfopinberir aðilar; ekki síst stjórn Verkamannabústaða. Í dag eru aðeins þrjú til fjögur stórfyrirtæki sem drottna yfir byggingaiðnaðinum. Á fjölmiðlamarkaði voru mörg dagblöð og tímarit, forverar núverandi netmiðla, gefin út af allskyns félagasamtökum, fólki sem vildi vinna að jákvæðum breytingum á samfélaginu. Í dag eiga örfáir auðmenn allt fjölmiðlaumhverfið fyrir utan Ríkisútvarpið. Og Ríkisútvarpið er orðið að málpípu stjórnvalda, líkt og var fyrir lýðræðisbyltingu fjölmiðlanna, þegar hætt var að þéra ráðafólk og sjónarhorn frétta og umfjöllunar færð frá valdastéttinni til almennings. Í smærri bæjum úti á landi var valdið yfir þróun atvinnulífs og mannfélags innan bæjanna sjálfra. Þar voru rekin kaupfélög eða verslanir í eigu heimamanna, margar útgerðir og fiskvinnslur, ýmist í einkaeign eða félagslegu eignarhaldi og alls konar í eigu heimafólks. Í dag er nánast öll atvinnustarfsemi í flestum bæjum í höndum fyrirtækja sem stjórnað er frá höfuðstöðvum langt langt í burtu. Og ef það eru enn stór fyrirtæki í þessum bænum þá eru þau í dag ryksugur sem soga fé upp úr samfélaginu og flytja það til eigendanna. Sem aftur flytja það til útlanda eða suður til Reykjavíkur að kaupa skipafélög, tryggingafélög, heildsölur, fasteignafélög, prentsmiðjur, fjölmiðla eða bakarí fyrir sunnan. Stefna til að styrkja hin fáu Ef við tækjum saman alla þá kaupmenn, útgerðarmenn, apótekara, bakara, heildsala, iðnaðarmanna og annað fólk sem rak sín eigin fyrirtæki, vann ekki hjá öðrum, fyrir fáum áratugum og leituðum að þeim í dag myndum við hvergi finna það. Ef fólki dreymdi fyrir fimmtíu árum um að eignast sitt eigið fyrirtæki og það sjálfstæði sem því átti að fylgja, þá er sá draumur ekki raunsær í dag. Það er reyndar til nýsköpunarvettvangur, sem stýrt er af hinu opinbera og bankakerfinu, en hann gengur út á að ungt fólk stofni fyrirtæki sem stærri fyrirtæki kaupa síðan upp eftir þrjú til fimm ár. Þetta er því draumur um að efnast skyndilega fremur en byggja upp rekstur og alls ekki um að raska jafnvægi hinna stóru eða auka samkeppni. Allt kerfið er í reynd byggt kringum þarfir hinna stóru. Þau eiga vettvanginn, ráða reglunum og eru í raun bæði endamarkið og verðlaunin sjálf. Draumur fólks í dag, sem vill forða sér frá þeirri fátækt sem almenn launavinna er ávísun á, er að vinna sig upp í millistjórnendastöðu hjá stórfyrirtæki, helst félagi í fjármálastarfsemi, komast í áhrifastöðu innan samtaka stórfyrirtækja eða þjóna auðvaldinu, hinum fáu ríku og valdamiklu, með öðrum hætti. Atvinnustefna liðinna áratuga hefur því ekki valdeflt fjöldann, ekki leyst úr læðingi sköpunarkraft einstaklingsins, eins og haldið var fram að væri markmiðið, heldur aðeins eflt fá stór fyrirtæki og beygt með því stærstan hluta atvinnulífsins undir miðstýringu og alræði örfárra. Líklega er fullyrðingar forystu Sjálfstæðisflokksins á liðnum áratugum um að hún ræki stefnu til að styrkja einstaklinginn og auka tækifæri hans, frelsa hann fá miðstýringu, einokun, fákeppni og fábreytni, stærsta lygi íslenskrar stjórnmálasögu. Stefnunni var allra tíð ætlað að styrkja hin fáu ríku og valdamiklu á kostnað fjöldans. Allt á röngunni Þessi stefna hefur umbreytt og stórlaskað samfélagið. Aukið vald fárra hefur drepið niður lýðræði og valkosti einstaklinganna, fest þá í neti fárra stórra fyrirtækja sem stýrt af örfáum fjölskyldum og allra auðugasta fólki á Íslandi. Það er svo önnur stór lygi íslenskra stjórnmála að þessi umbreyting sé ekki umbylting heldur þvert á móti stöðugleiki. Því er haldið fram blákalt að stefna Sjálfstæðisflokksins og fylgitungla hans verji samfélagið fyrir of snöggum breytingum þegar stefnan hefur þvert á móti umturnað hugmyndum okkar um atvinnurekstur. Það er nefnilega ekki bara svo að atvinnu hafi verið kippt undan mörgum sjávarbyggðum vegna samþjöppunar sjávarútvegsins heldur hefur átt sér stað algjör umskipti í öllum atvinnugreinum, eins og bent var á hér að ofan, linnulaus samþjöppun sem hefur dregið úr samkeppni heldur hefur grunnviðmiðum fyrirtækjarekstrar verið snúið á rönguna. Tökum dæmi: 150 af 300 stærstu fyrirtækjunum landsins voru stofnuð á þessari öld. Bendir þetta til endurnýjunarkrafts óbeislaðs kapítalisma? Fjármálavæðing atvinnulífsins Mörg þessara fyrirtækja eru ný félög utan um eldri rekstur, stundum eftir stórkostlega skuldaniðurfellingu; Útgerðarfélag Akureyrar, Jakob Valgeir, BM Vallá, Húsasmiðjan o.s.frv. Þarna eru líka gömul ríkisfyrirtæki eftir einkavæðingu þeirra og annar opinber og hálf opinber rekstur sem nú eru rekin sem opinber hlutafélög. Þetta á við um Símann, Orkuveituna, Ríkisútvarpið, Landsnet, Reiknistofu bankanna o.s.frv. Þarna eru líka fyrirtæki sem keyrð voru í kaf í bólunni miklu, á árunum bankaránanna miklu, og endurreist aftur eftir Hrun. Þetta á við um allir bankana, Sjóvá, Eimskip, Icelandair, Kynnisferðir, Haga, Festi , Kviku, Ístak o.s.frv. Þriðjungur af þessum 150 fyrirtækjum eru síðan ný fjármálafyrirtæki, braskfyrirtæki kringum einstaka byggingaframkvæmdir og eignarhaldsfélög sem notuð eru til að kaupa og selja fyrirtæki, hlutabréf og eignir. Einnig fasteignafélög sem söfnuðu að sér eldri eignum eftir Hrunið til að geta geymt og selt eða leigt gegn sífellt hækkandi leigu. Þegar þessu hefur verið sópað burt er varla hægt að finna fyrirtæki á þessum lista sem flokka má sem hefðbundinn fyrirtækjarekstur, þess sem í Bandaríkjunum er kallað Main Street til aðgreiningar frá fjármálavæðingu Wall Street. Á þessum lista yfir stærstu fyrirtæki landsins sem stofnað var til á þessari öld eru það helst WOW, Nova, Costco, Alcoa og nokkur fiskeldisfyrirtæki, annað hvort í eigu norskra fyrirtækja eða íslenskrar stórútgerðar. Af hinumfyrirtækjunum var WOW og Nova stofnað af Íslendingum, WOW er farið á hausinn og búið að selja Nova til fjárfestingarsjóðs í Alaska. Þetta er allur afrakstur nýsköpunar undir miðstýrðu kerfi hinna ríku og valdamiklu. Til að finna raunveruleg stór nýsköpunarfyrirtæki á þessum lista þurfum við að fara aftur til 1997 (CCP), 1995 (Íslensk erfðagreining), 1983 (Marel) eða 1971 (Össur). Þau fyrirtæki sem oftast er bent á sem dæmi um sköpunarkraft kapítalismans tilheyra í raun þeim tíma sem haldið er fram að hafi einkennst af afturhaldi, höftum, skattpíningu og tregðu. Þegar sagan er skoðuð kemur þveröfugt í ljós: Við erum að sigla inn í tíma æ meiri einokunar, augljósari fákeppni, minni samkeppni, minna lýðræðis og virkni, takmarkaðri félagslegs hreyfanleika, færri tækifæra fyrir fólk og meira vald örfárra auðkýfinga. Til hvers kýs fólk Sjálfstæðisflokkinn? Ég er ekki að leggja til að við förum aftur til 1970 eða 1980, áður en kapítalismanum var sleppt óbeisluðum á samfélagið. Ég trúi að frekari félagslegur rekstur hefði leyst enn meira afl úr læðingi; að hér væru fleiri fyrirtæki og rekstur á borð við Hitaveituna, Landspítalann, Háskólann, Landsvirkjun, grunnskólanna, vegakerfið og aðrar máttarstoðir samfélagsins sem byggðar voru upp með samfélagslegum markmiðum og í félagslegu eignarhaldi. En ég vil spyrja þau sem ekki hafa kannski sömu trú og ég á félagslegum rekstri og halda enn í þá hugmynd að Sjálfstæðisflokkurinn og fylgitungl hans séu að færa samfélagið í átt til meira frelsis og aukinna tækifæra: Finnst ykkur ekki augljóst að þetta er akkúrat þveröfugt? Sú leið sem samfélagið er á ýtir ekki aðeins undir ójöfnuð heldur rekur upp samfélagsvefnaðinn. Í stað þess að hann sé ofinn úr mörgum þráðum, út frá vilja og vonum fjölda fólks í alls kyns starfsemi og stússi, er samfélagið orðið eins og gólfmotta hinna ríku, verstöð sem við hin erum föst innan. Á það var bent á síðustu öld að óskiljanlegt væri að fátækt verkafólk kysi Sjálfstæðisflokkinn, flokk heildsala, útgerðarmanna og annarra businessmanna. En síðan hefur flokkurinn breyst og sú stefna sem hann rekur. Í dag er það enn jafn galið fyrir fátækt fólk að kjósa þennan flokk en það er orðið jafn óskiljanlegt hvers vegna fólk, sem segist trúa á frelsi einstaklingsins og hið svokallaða einkaframtak, ætli að kjósa flokk allra auðugustu fjármagnseigendanna og allra stærstu eigenda allra stærstu fyrirtækjanna. Það fólk er mestu andstæðingar nýrra og smárra fyrirtækja. Þeirra markmið er að þrengja að samkeppni og innleiða hér fákeppni og einokun innan sovétkerfis hinna ríku. Og til að ná því markmiði notar það samtök sín, það vald sem fylgir peningunum en ekki síst Sjálfstæðisflokkinn og skylda flokka, sem styðja þá stefnu sem skaðað hefur samfélagið á liðnum áratugum, og ekki síst atvinnulífið. Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gunnar Smári Egilsson Skoðun: Kosningar 2021 Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Alvotech og Arion banki stofna grunnskóla Haraldur Freyr Gíslason Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Skoðun Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson skrifar Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir skrifar Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson skrifar Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson skrifar Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson skrifar Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson skrifar Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson skrifar Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð skrifar Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson skrifar Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir skrifar Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson skrifar Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir skrifar Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Dans verkalýðsleiðtoga í kringum gullkálfinn Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Jól í sól versus jóla í dimmu Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson skrifar Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson skrifar Skoðun Er janúar leiðinlegasti mánuður ársins? Dagbjört Harðardóttir skrifar Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson skrifar Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar Skoðun Manni verður kalt ef maður pissar í skóinn sinn Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar Skoðun Skautun eða tvíhyggja? Þóra Pétursdóttir skrifar Skoðun Egóið er í hégómanum Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Sjá meira
Þegar ég var að alast upp hafði fákeppni mótast á mörgum sviðum atvinnulífs en var samt í engri líkingu við það sem síðar varð. Í olíuverslun voru þrjú fyrirtæki; Olís, Esso og Shell og þannig er það að mestu enn þótt nöfnin séu önnur. Atlantsolía hefur reyndar bæst við og Costco selur bensín á nokkrum dælum við verslun sína í Garðabænum. Þrátt fyrir innkomu Costco og Atlantsolíu á markaðinn er verðið hjá stóru olíufélögunum ætíð það sama, eins og um samantekin ráð sé að ræða. Og við vitum vel að svo er. Þessi félög voru dæmd fyrir nokkrum árum eftir að sannað var að þau höfðu reglubundið samráð um verðlagningu. Á þeim tíma voru verðbreytingar með sama hætti og í dag, allir hækkuðu á sama tíma jafn mikið. Og þegar yfirborðið er það sama, er ekki djarft að álykta að undir því sé allt við það sama. Bankaeyðingin mikla Í bankaþjónustu voru nokkru fleiri fyrirtæki þegar ég var barn; Landsbankinn, Búnaðarbankinn, Iðnaðarbankinn, Samvinnubankinn, Alþýðubankinn, Verslunarbankinn og fjölmargir sparisjóðir um allt land. Á höfuðborgarsvæðinu voru Spron og Sparisjóður vélstjóra umfangsmiklir, en svo voru líka sparisjóðir í Kópavogi og Hafnarfirði. Sparisjóðurinn í Keflavík var stór og líka sá upp í Borgarfirði, svo ég dragi aðeins víðari hring um Reykjavík. Í dag eru fyrst og fremst þrír bankar á Íslandi. Þeir gleyptu flesta hinna á leiðinni, suma í rekstri en hreinsuðu upp hræin af öðrum. Það má vera að bankarnir keppist um að fá allra auðugasta fólkið í viðskipti en almenningur kannast ekki við neina samkeppni milli þeirra. Vextir er svipaðir og öll þau fjölbreytilegu gjöld sem bankarnir hafa fundið upp til að hafa fé af viðskiptafólki sínu. Og allir eru þeir reknir með stórkostlegum hagnaði. Þeir auglýsa aldrei þjónustu sína út frá verði, kynna sig frekar sem einskonar lífstílsfélög en fyrirtæki á samkeppnismarkaði og reyna að umlykja sig eftirsóknarverðri ímynd alls óskyldri bankarekstri. Allt safnast saman í þríeitt félag Fyrir hálfri öld voru tryggingafélögin nokkur; Brunabótafélagið, Vátryggingafélagið, Samvinnutryggingar, Almennar tryggingar, Andvaka, Sjóvá, Hagtrygging, Tryggingamiðstöðin, Ábyrgð, Trolle & Rothe o.fl. Tryggingastofnun ríkisins var meira að segja með slysatryggingadeild. Í dag eru það fyrst og fremst Sjóvá, Vís og TM sem selja almenningi tryggingar. Þau hafa stækkað með samruna og fitnað í fákeppninni. Eigendur greiða sér síðan stórkostlegar upphæðir í arð. Fólk getur heimsótt eitt þessara félaga og fengið tilboð í tryggingar, sem þá er vanalega lægra en þær tryggingar sem fólk borgaði áður hjá fyrra félagi. Fólk getur þá skipt um félag eða óskað eftir að fyrra félagið lækki. Sem það gerir. Síðan líða vikur og mánuðir og brátt hafa tryggingariðgjöldin hækkað á ný. Eins og hjá bönkunum er þetta ekki raunveruleg verðsamkeppni Tryggingafélögin sætta sig við minni hlutdeild á markaði með hærra verði og betri afkomu og leggja því ekki út í að lækka verð til að auka hlutdeild. Þetta er eðli fákeppni. Sigur mjólkurbúðanna Fyrir hálfri öld var fátítt að fyrirtæki væri með fleiri en eina matvöruverslun. Það var helst KEA, Kron og SS. Mest af dagvöru var keypt hjá kaupmanninum í hverfinu. Í Vogahverfinu og Langholti voru t.d. Heimakjör, Vogaver, Rangá, Holtskjör, Langholtskjör og eflaust fleiri, ég skrifa þetta upp eftir minni. Allt voru þetta fjölskyldufyrirtæki þar sem eigandinn afgreiddi sjálfur. Við hlið þessar matvörubúða voru oftast fiskbúðir þar sem eigandinn gerði að fiskinum og rétti hann yfir borðið. Og þannig voru líka apótekin, bakaríin, efnalaugarnar, blómabúðirnar, ritfangabúðirnar, tískubúðirnar og hvað eina. Það voru bara mjólkurbúðirnar sem voru hluti af keðju, þær voru reknar af Mjólkursamsölunni í Reykjavík og fóru mikið í taugarnar á fólki í Sjálfstæðisflokknum, sem sagðist vilja sjá einkaframtakið auðga mjólkursöluna og rífa hana upp úr stöðnun, fábreytni og leiðindum. Nú eru mjólkurbúðirnar horfnar en svo til öll dagvöruverslun komin undir þrjár keðjur með stöðluðu vöruúrvali, framsetningu og verðlagningu. Þar sem áður voru apótekarar hver með sitt apótek eru nú fyrst og fremst tvær keðjur í lyfsölu. Það er helst að fiskbúðirnar hafi lifað af sem normal rekstur þar sem fólk kaupir beint af eigandanum eða fjölskyldu hans. Hitt er allt meira og minna orðið að fjarstýrðum maskínum sem stýrt er út frá ákvörðunum og hagsmunum fjárfesta einhvers staðar langt í burtu. Bakaríin eru ekki bara færri og sum stór með mörg útibú, heldur hefur fjölbreytileikinn líka étist upp innan frá. Stór hluti af því sem selt er í bakaríunum er hnoðað, útbúið og fryst í Póllandi og aðeins hitað upp í því sem fólk heldur að sé raunverulegt bakarí.En mesta breytingin er sú að brauðsalan hefur flust frá mjólkurbúðum og bakaríum inn í stórmarkaði þar sem fyrst og fremst eitt stórt iðnaðarbakarí skaffar öll brauðin. Heildsalar fremja pólitískt sjálfsmorð Á bak við matvörubúðirnar eru heildsölur. Í dag eru fyrst og fremst þrjár stórar slíkar sem drottna yfir markaðnum; Ísam, Innnes og Garri. Þegar ég var að alast upp voru heildsölurnar nógu margar til að heildsalarnir væru sterkt afl innan Sjálfstæðisflokksins, karlar sem fundu til sín, reyktu vindla og þóttust vera að berjast fyrir frjálsum viðskiptum. Þeir sögðu Sambandið og kaupfélögin leiða til fábreytni og einhæfni og að öll ríkisafskipti af verðlagsmálum væri af hinu vonda. Þessir karlar unnu þessa baráttu. Ríkið tók hendurnar af stýrinu og Sambandið dó. En heildsalarnir dóu líka. Afleiðingin af stefnu þeirra var að vald og auður safnaðist á færri hendur, stóru fyrirtækin átu upp hin smærri og samkeppnin varð miklu minni en hún var á þeim tíma sem karlarnir kvörtuðu í vindlareyknum í bakherbergjum Valhallar. Nú eru það fyrst og fremst þrjár, fjórar fjölskyldur sem eiga og stjórna megninu af öllum innflutningi á neysluvöru. Tengsl þessara fyrirtækja við fáar stórar stórmarkaðarkeðjur og sú staða sem byggst hefur upp í kringum þau tengsl, risastórar róbotavæddar vöruskemmur, afsláttarkjör á flutningum og slælegt samkeppniseftirlit, veldur því að það er nánast vonlaust fyrir ný fyrirtæki að komast inn á markaðinn. Og eina lífsvon hinna smáu er að hin stóru kaupi þau svo eigendurnir sleppi út með sæmilegan sjóð til að lifa af til æviloka við verkleysi. Samþjöppun sjávarútvegsins Og talandi um pólitískt ítök innan Sjálfstæðisflokksins fyrir fáeinum áratugum; þá voru líka upp um alla veggi í Valhöll háværir útgerðarmenn víða að af landinu, karlar sem áttu kannski einn bát og saltfiskverkun eða togara og frystihús. Þótt til væru stærri fyrirtæki, sem þá voru reyndar flest samvinnu- eða bæjarútgerðir, þá var megnið að útgerð og fiskvinnslu í einkaeign í höndum margra smárra fyrirtæki. Í flestum þorpum og bæjum voru margar útgerðir, þónokkrar fiskvinnslur, frystihús eða saltverkun, netaverkstæði, smiðjur og önnur fyrirtæki sem þjónuðu sjávarútveginn. Nú eru flestar hafnir landsins tómar, útgerð og fiskvinnsla komin undir örfáar stórútgerðir. Á liðnum árum hafa hin stóru gleypt hin smærri og smátt og smátt hefur stefna stjórnvalda snúist um að verja hagsmuni hinna stóru. Og það á ekki aðeins við um hið opinbera, heldur á það einnig við um samtök útgerðarinnar, sem í dag kallast SFS. Átta manna meirihluti stjórnar þeirra samtaka eru fulltrúar fyrirtækja sem eiga tæplega 60% af kvótanum. SFS er þannig í reynd félag hinna fáu stóru, sem hafa stækkað á því að mylja undir sig hina mörgu og smáu. Og sem ætla að stækka enn meira. Hin smáu hverfa, hin stóru stækka Ég gæti haldið áfram að rekja hvernig þróun síðustu áratuga hefur leitt til fákeppni og einokunar og í raun rakið upp lýðræðislegan vefnað samfélagsins. Þar sem áður voru mörg smá einkafyrirtæki og önnur stór í almannaeigu, eru nú víðast aðeins örfá fyrirtæki sem ýmist eru í eigu örfárra eða stýrt af þeim sem eiga smærri hlut á móti lífeyrissjóðunum, en geta í skjóli forystuleysis sjóðanna farið með þessi fyrirtæki eins og þeir eigi þau. Í byggingaiðnaði voru ekki aðeins mörg einkafyrirtæki heldur líka byggingarsamvinnufélög í eigu þeirra sem ætluðu sér að búa í húsunum sem verið var að byggja og einnig umsvifamiklir opinberir og hálfopinberir aðilar; ekki síst stjórn Verkamannabústaða. Í dag eru aðeins þrjú til fjögur stórfyrirtæki sem drottna yfir byggingaiðnaðinum. Á fjölmiðlamarkaði voru mörg dagblöð og tímarit, forverar núverandi netmiðla, gefin út af allskyns félagasamtökum, fólki sem vildi vinna að jákvæðum breytingum á samfélaginu. Í dag eiga örfáir auðmenn allt fjölmiðlaumhverfið fyrir utan Ríkisútvarpið. Og Ríkisútvarpið er orðið að málpípu stjórnvalda, líkt og var fyrir lýðræðisbyltingu fjölmiðlanna, þegar hætt var að þéra ráðafólk og sjónarhorn frétta og umfjöllunar færð frá valdastéttinni til almennings. Í smærri bæjum úti á landi var valdið yfir þróun atvinnulífs og mannfélags innan bæjanna sjálfra. Þar voru rekin kaupfélög eða verslanir í eigu heimamanna, margar útgerðir og fiskvinnslur, ýmist í einkaeign eða félagslegu eignarhaldi og alls konar í eigu heimafólks. Í dag er nánast öll atvinnustarfsemi í flestum bæjum í höndum fyrirtækja sem stjórnað er frá höfuðstöðvum langt langt í burtu. Og ef það eru enn stór fyrirtæki í þessum bænum þá eru þau í dag ryksugur sem soga fé upp úr samfélaginu og flytja það til eigendanna. Sem aftur flytja það til útlanda eða suður til Reykjavíkur að kaupa skipafélög, tryggingafélög, heildsölur, fasteignafélög, prentsmiðjur, fjölmiðla eða bakarí fyrir sunnan. Stefna til að styrkja hin fáu Ef við tækjum saman alla þá kaupmenn, útgerðarmenn, apótekara, bakara, heildsala, iðnaðarmanna og annað fólk sem rak sín eigin fyrirtæki, vann ekki hjá öðrum, fyrir fáum áratugum og leituðum að þeim í dag myndum við hvergi finna það. Ef fólki dreymdi fyrir fimmtíu árum um að eignast sitt eigið fyrirtæki og það sjálfstæði sem því átti að fylgja, þá er sá draumur ekki raunsær í dag. Það er reyndar til nýsköpunarvettvangur, sem stýrt er af hinu opinbera og bankakerfinu, en hann gengur út á að ungt fólk stofni fyrirtæki sem stærri fyrirtæki kaupa síðan upp eftir þrjú til fimm ár. Þetta er því draumur um að efnast skyndilega fremur en byggja upp rekstur og alls ekki um að raska jafnvægi hinna stóru eða auka samkeppni. Allt kerfið er í reynd byggt kringum þarfir hinna stóru. Þau eiga vettvanginn, ráða reglunum og eru í raun bæði endamarkið og verðlaunin sjálf. Draumur fólks í dag, sem vill forða sér frá þeirri fátækt sem almenn launavinna er ávísun á, er að vinna sig upp í millistjórnendastöðu hjá stórfyrirtæki, helst félagi í fjármálastarfsemi, komast í áhrifastöðu innan samtaka stórfyrirtækja eða þjóna auðvaldinu, hinum fáu ríku og valdamiklu, með öðrum hætti. Atvinnustefna liðinna áratuga hefur því ekki valdeflt fjöldann, ekki leyst úr læðingi sköpunarkraft einstaklingsins, eins og haldið var fram að væri markmiðið, heldur aðeins eflt fá stór fyrirtæki og beygt með því stærstan hluta atvinnulífsins undir miðstýringu og alræði örfárra. Líklega er fullyrðingar forystu Sjálfstæðisflokksins á liðnum áratugum um að hún ræki stefnu til að styrkja einstaklinginn og auka tækifæri hans, frelsa hann fá miðstýringu, einokun, fákeppni og fábreytni, stærsta lygi íslenskrar stjórnmálasögu. Stefnunni var allra tíð ætlað að styrkja hin fáu ríku og valdamiklu á kostnað fjöldans. Allt á röngunni Þessi stefna hefur umbreytt og stórlaskað samfélagið. Aukið vald fárra hefur drepið niður lýðræði og valkosti einstaklinganna, fest þá í neti fárra stórra fyrirtækja sem stýrt af örfáum fjölskyldum og allra auðugasta fólki á Íslandi. Það er svo önnur stór lygi íslenskra stjórnmála að þessi umbreyting sé ekki umbylting heldur þvert á móti stöðugleiki. Því er haldið fram blákalt að stefna Sjálfstæðisflokksins og fylgitungla hans verji samfélagið fyrir of snöggum breytingum þegar stefnan hefur þvert á móti umturnað hugmyndum okkar um atvinnurekstur. Það er nefnilega ekki bara svo að atvinnu hafi verið kippt undan mörgum sjávarbyggðum vegna samþjöppunar sjávarútvegsins heldur hefur átt sér stað algjör umskipti í öllum atvinnugreinum, eins og bent var á hér að ofan, linnulaus samþjöppun sem hefur dregið úr samkeppni heldur hefur grunnviðmiðum fyrirtækjarekstrar verið snúið á rönguna. Tökum dæmi: 150 af 300 stærstu fyrirtækjunum landsins voru stofnuð á þessari öld. Bendir þetta til endurnýjunarkrafts óbeislaðs kapítalisma? Fjármálavæðing atvinnulífsins Mörg þessara fyrirtækja eru ný félög utan um eldri rekstur, stundum eftir stórkostlega skuldaniðurfellingu; Útgerðarfélag Akureyrar, Jakob Valgeir, BM Vallá, Húsasmiðjan o.s.frv. Þarna eru líka gömul ríkisfyrirtæki eftir einkavæðingu þeirra og annar opinber og hálf opinber rekstur sem nú eru rekin sem opinber hlutafélög. Þetta á við um Símann, Orkuveituna, Ríkisútvarpið, Landsnet, Reiknistofu bankanna o.s.frv. Þarna eru líka fyrirtæki sem keyrð voru í kaf í bólunni miklu, á árunum bankaránanna miklu, og endurreist aftur eftir Hrun. Þetta á við um allir bankana, Sjóvá, Eimskip, Icelandair, Kynnisferðir, Haga, Festi , Kviku, Ístak o.s.frv. Þriðjungur af þessum 150 fyrirtækjum eru síðan ný fjármálafyrirtæki, braskfyrirtæki kringum einstaka byggingaframkvæmdir og eignarhaldsfélög sem notuð eru til að kaupa og selja fyrirtæki, hlutabréf og eignir. Einnig fasteignafélög sem söfnuðu að sér eldri eignum eftir Hrunið til að geta geymt og selt eða leigt gegn sífellt hækkandi leigu. Þegar þessu hefur verið sópað burt er varla hægt að finna fyrirtæki á þessum lista sem flokka má sem hefðbundinn fyrirtækjarekstur, þess sem í Bandaríkjunum er kallað Main Street til aðgreiningar frá fjármálavæðingu Wall Street. Á þessum lista yfir stærstu fyrirtæki landsins sem stofnað var til á þessari öld eru það helst WOW, Nova, Costco, Alcoa og nokkur fiskeldisfyrirtæki, annað hvort í eigu norskra fyrirtækja eða íslenskrar stórútgerðar. Af hinumfyrirtækjunum var WOW og Nova stofnað af Íslendingum, WOW er farið á hausinn og búið að selja Nova til fjárfestingarsjóðs í Alaska. Þetta er allur afrakstur nýsköpunar undir miðstýrðu kerfi hinna ríku og valdamiklu. Til að finna raunveruleg stór nýsköpunarfyrirtæki á þessum lista þurfum við að fara aftur til 1997 (CCP), 1995 (Íslensk erfðagreining), 1983 (Marel) eða 1971 (Össur). Þau fyrirtæki sem oftast er bent á sem dæmi um sköpunarkraft kapítalismans tilheyra í raun þeim tíma sem haldið er fram að hafi einkennst af afturhaldi, höftum, skattpíningu og tregðu. Þegar sagan er skoðuð kemur þveröfugt í ljós: Við erum að sigla inn í tíma æ meiri einokunar, augljósari fákeppni, minni samkeppni, minna lýðræðis og virkni, takmarkaðri félagslegs hreyfanleika, færri tækifæra fyrir fólk og meira vald örfárra auðkýfinga. Til hvers kýs fólk Sjálfstæðisflokkinn? Ég er ekki að leggja til að við förum aftur til 1970 eða 1980, áður en kapítalismanum var sleppt óbeisluðum á samfélagið. Ég trúi að frekari félagslegur rekstur hefði leyst enn meira afl úr læðingi; að hér væru fleiri fyrirtæki og rekstur á borð við Hitaveituna, Landspítalann, Háskólann, Landsvirkjun, grunnskólanna, vegakerfið og aðrar máttarstoðir samfélagsins sem byggðar voru upp með samfélagslegum markmiðum og í félagslegu eignarhaldi. En ég vil spyrja þau sem ekki hafa kannski sömu trú og ég á félagslegum rekstri og halda enn í þá hugmynd að Sjálfstæðisflokkurinn og fylgitungl hans séu að færa samfélagið í átt til meira frelsis og aukinna tækifæra: Finnst ykkur ekki augljóst að þetta er akkúrat þveröfugt? Sú leið sem samfélagið er á ýtir ekki aðeins undir ójöfnuð heldur rekur upp samfélagsvefnaðinn. Í stað þess að hann sé ofinn úr mörgum þráðum, út frá vilja og vonum fjölda fólks í alls kyns starfsemi og stússi, er samfélagið orðið eins og gólfmotta hinna ríku, verstöð sem við hin erum föst innan. Á það var bent á síðustu öld að óskiljanlegt væri að fátækt verkafólk kysi Sjálfstæðisflokkinn, flokk heildsala, útgerðarmanna og annarra businessmanna. En síðan hefur flokkurinn breyst og sú stefna sem hann rekur. Í dag er það enn jafn galið fyrir fátækt fólk að kjósa þennan flokk en það er orðið jafn óskiljanlegt hvers vegna fólk, sem segist trúa á frelsi einstaklingsins og hið svokallaða einkaframtak, ætli að kjósa flokk allra auðugustu fjármagnseigendanna og allra stærstu eigenda allra stærstu fyrirtækjanna. Það fólk er mestu andstæðingar nýrra og smárra fyrirtækja. Þeirra markmið er að þrengja að samkeppni og innleiða hér fákeppni og einokun innan sovétkerfis hinna ríku. Og til að ná því markmiði notar það samtök sín, það vald sem fylgir peningunum en ekki síst Sjálfstæðisflokkinn og skylda flokka, sem styðja þá stefnu sem skaðað hefur samfélagið á liðnum áratugum, og ekki síst atvinnulífið. Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum.
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir skrifar
Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar
Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar
Opið bréf til forystu Kennarasambands Íslands (KÍ): Endurskoðum aðferðafræði verkfallsins Valgerður Bára Bárðardóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun