Bjarki Már Elísson hafði betur gegn Oddi Gretarssyni er Lemgo vann nauman eins marks sigur á útivelli gegn Balingen-Weilstetten í þýsku úrvalsdeildinni, lokatölur 26-25 gestunum í vil. Bjarki Már skoraði fjögur mörk á meðan Oddur skoraði tvö.
Lærisveinar Guðmunds Guðmundssonar í Melsungen unnu góðan tveggja marka sigur á Erlangen í sömu deild, lokatölur 31-29. Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað hjá Melsungen.
Melsungen er í 10. sæti deildarinnar með 19 stig, Lemgo er í 12. með 18 stig og Balingen-Weilstetten því 16. með 11 stig.
Ribe-Esbjerg mátti þola súrt eins marks tap gegn Berringbro-Silkeborg á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni. Ribe-Esbjerg var 17-16 yfir í hálfleik en tapaði leiknum á endanum 29-28.
Rúnar Kárason átti að venju frábæran leik í liði Ribe-Esbjerg en hann skoraði sex mörk. Þá gerði Daníel Ingason fjögur mörk. Þessi tíu íslensku mörk dugðu skammt í kvöld. Ribe-Esbjerg er í 9. sæti deildarinnar með 18 stig.
Aðeins eitt mark leit dagsins ljós í öruggum útisigri Kristianstad á Önnereds í sænsku úrvalsdeildinni. Vann Íslendingaliðið á endanum tíu marka sigur, lokatölur 32-22.
Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark en Ólafur Andrés Guðmundsson komst ekki á blað. Aron Dagur Pálsson komst heldur ekki á blað í naumum útisigri Alingsås á IF Hallby, lokatölur 30-29.
Kristianstads er í 6. sæti deildarinnar með 32 stig á meðan Alingsås er í 4. sæti með 35 stig.