Erlent

Sakbitinn Boris hætti í blaðamennsku en var enginn kórdrengur sem pistlahöfundur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þegar Johnson hætti að skrifa pistla fyrir Daily Telegraph var hann að fá 800 krónur fyrir orðið.
Þegar Johnson hætti að skrifa pistla fyrir Daily Telegraph var hann að fá 800 krónur fyrir orðið. epa/Andy Rain

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hætti í blaðamennsku af því að honum leið illa með að „misnota eða ráðast að fólki“ án þess að setja sig í þeirra spor. Þetta sagði ráðherrann þegar hann heimsótti grunnskóla í Lundúnum í dag.

„Ég var eins og blaðamaður í langan tíma, og er það raunar ennþá; ég er enn að skrifa,“ sagði Johnson. Blaðamennska væri frábær atvinnugrein en vandinn væri sá að stundum stæði maður sjálfan sig að því að misnota eða ráðast að fólki.

„Það er ekki þannig að þú viljir misnota það eða ráðast að þeim en þú ert að vera gagnrýninn... kannski finnur þú stundum til sektarkenndar vegna þess því þú hefur ekki sett þig í spor þess sem þú ert að gagnrýna.“

Fjölmiðlafulltrúi forsætisráðherrans sagði að hann hefði verið að vísa til þess hluta starfsins að veita stjórnvöldum aðhald; gagnrýnin gerði leiddi til betri stjórnarhátta.

Guardian rifjar hins vegar upp nokkur skipti þar sem Johnson gerðist sekur um að ráðast gegn einstaklingum eða hóp án þess að setja sig í spor viðkomandi.

Í pistli sem birtist í Daily Telegraph árið 2018 sagði forsætisráðherrann til dæmis konur í búrkum líkjast póstkössum eða bankaræningjum. Þá talaði hann meðal annars um „vatnsmelónubros“ í tengslum við Afríku og talaði um homma sem „hlýrabolaklædda bossastráka“ í pistli árið 1998.

Johnson var, eins og frægt er orðið, sagt upp hjá Times fyrir að hafa skáldað tilvitnun. Þá er hann sagður hafa kunnað því illa að fá neikvæða umfjöllun. 

„Ég á handskrifaða orðsendingu frá mögulegum næsta forsætisráðherra þar sem hann hótar alvarlegum afleiðingum ef ég held áfram að gagnrýna hann,“ sagði ristjórinn Max Hastings árið 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×