Innlent

Í skoðun að styrkja samgöngur til og frá flugvellinum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Rútuferðir á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgar liggja niðri vegna fækkunar flugfarþega. Samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytið hefur nú til skoðunar hvort rétt sé að grípa inn í og styrkja samgöngur þar á milli í ljósi þess að komufarþegar brjóti ítrekað reglur um sóttkví.
Rútuferðir á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgar liggja niðri vegna fækkunar flugfarþega. Samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytið hefur nú til skoðunar hvort rétt sé að grípa inn í og styrkja samgöngur þar á milli í ljósi þess að komufarþegar brjóti ítrekað reglur um sóttkví. Vísir/Vilhelm

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur nú til skoðunar hvort og þá með hvaða hætti styrkja eigi samgöngur á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarinnar í ljósi þess að enn eru brögð að því að komufarþegar virði að vettugi reglur um sóttkví með því að láta vini og ættingja sækja sig á völlinn.

Öllum sem hingað koma er skylt að fara í skimun við komuna og beint í sóttkví að því loknu.

Erfitt að eltast við fólk með einbeittan brotavilja

Arngrímur Guðmundsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli.

„Það er talsvert um þetta ennþá. Við erum með löggæslu alla daga niður í komusal og við sjáum endalaust af bílum sem koma að sækja. Þetta er orðinn hálfgerður eltingaleikur þar sem menn taka leigubíla niður í bæ [Keflavík] á ákveðin svæði og þar koma ættingjar og sækja þá þannig að það er orðið ansi erfitt að ná í skottið á fólki.“

Í ljósi fækkunar flugfarþega liggja rútuferðir til og frá Keflavíkurflugvelli niðri. Komufarþegar hafa því tvo valkosti í stöðunni en það er að taka leigubíl eða að leigja bílaleigubíl.

„Í sjálfu sér þá horfir fólk á leigubílinn. Hann kostar dálítið mikið til Reykjavíkur til dæmis, jafnvel dýrari en flugfarið. Ég held að með því að koma upp samgöngum á milli Reykjavíkur og flugvallarins þá mun það létta mikið á þessu. Fólk myndi frekar fara í rútu til Reykjavíkur heldur en að láta sækja sig“.

Fréttastofa hefur nú fengið staðfest frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu að til skoðunar sé hvort rétt sé að tryggja ódýrari samöngur á milli flugvallarins og höfuðborgarinnar í ljósi aðstæðna. Ráðuneytið skoðar nú valkosti sem uppi eru til þess en einn þeirra lýtur að því að styrkja flugrútuna. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.

Reglugerðin að fullu innleidd á næstu dögum

Líkt og fram hefur komið verða komufarþegar sektaðir fyrir að vera ekki með svokallað PCR próf. Arngrímur segist eiga von á því að ríkissaksóknari muni taka ákvörðun um sektarupphæð í dag.

„Við reiknum með því að núna á næstu dögum þá verði þessi reglugerð innleidd að fullu hjá okkur þar sem menn verða sektaðir á landamærunum ef þeir koma ekki með PCR vottorð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×