Innlent

Enn að jafna sig á Covid-19

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn smitaðist af veirunni í nóvember.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn smitaðist af veirunni í nóvember. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segist enn vera að jafna sig á Covid-19 sjúkdómnum sem hann fékk seinni hluta nóvember. Hann segist ekki óska neinum að smitast af kórónuveirunni.

Víðir var á sínum stað og stýrði fundi almannavarnadeildar og sóttvarnalæknis í dag. Hann hefur stýrt vel á annað hundrað fundum undanfarið ár en varð frá að hverfa í nokkrar vikur eftir að hafa smitast í nóvember.

„Já, ég er enn þá aðeins að fást við nokkrar afleiðingar,“ sagði Víðir á fundinum í dag.

„Ég er ekki með neitt lyktarskyn og ekki með neitt bragðskyn. Þrekið er ekki komið aftur að fullu. Það er eitt og annað, líkamleg áhrif sem hafa áhrif enn þá,“ sagði Víðir og bætti við:

„Nú eru í dag liðnir þrír mánuðir síðan ég smitaðist. Ég mæli ekki með því við neinn að fá sér þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×