Þetta kemur fram í svari menntamálaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu RÚV, en þar staðfestir ráðherra að ákvörðun hafi verið tekin og hefur ráðuneytið óskað eftir heimild fjármála- og efnahagsráðuneytisins til samningsgerðar.
Ljóst er að kvikmyndanám á háskólastigi hefur lengi verið til umræðu, en í janúar á þessu ári sendu 55 kvikmyndagerðarmenn bréf til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem þeir mæltu með því að fela Listaháskólanum að annast námið. Sögðu þeir eðlilegast að námið yrði kennt í skóla sem væri viðurkennt háskólastofnun.
„Þessar tvær stofnanir geta báðar vel þrifist, haft jákvæð áhrif hvor á aðra um leið og þær sinna ólíkum hlutverkum sínum. KVÍ á framhaldsskólastigi og LHÍ á háskólastigi,“ sagði í bréfi kvikmyndagerðarmannanna.