Suu Kyi mætti fyrir dóm í dag, í gegn um fjarfundabúnað, en hún var fyrr í mánuðinum ákærð fyrir að hafa brotið innflutningslög landsins og að hafa haft í vörslu sinni ólögleg fjarskiptatæki. Suu Kyi var tekin höndum eftir að herinn rændi völdum þann 1. febrúar síðastliðinn og hefur hún verið í gæsluvarðhaldi síðan.
Herforingjastjórnin ítrekaði það fyrr í dag að hún muni efna til nýrra kosninga fljótlega, eins og hún hefur lofað, og muni í kjölfarið láta af völdum.
Andstæðingar herforingjastjórnarinnar hafa undanfarnar vikur mótmælt valdaráninu og hafa hundruð þúsundir tekið þátt í mótmælunum víða um landið. Mótmælendur hafa meðal annars krafist þess að lýðræðislega kjörnum fulltrúum verði sleppt úr haldi, þar á meðal Suu Kyi.
Suu Kyi hefur verið haldið í stofufangelsi og sögðu lögmenn hennar fyrir dómi í dag að henni liði vel. Mál hennar verður næst tekið fyrir í dómssal þann 1. mars.