Innlent

Fjöldi á bið­lista eftir þjónustu átröskunar­teymis marg­faldast

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þjónusta átröskunarteymis Landspítala var flutt í göngudeildarhúsnæði geðþjónustunnar á Kleppi árið 2019.
Þjónusta átröskunarteymis Landspítala var flutt í göngudeildarhúsnæði geðþjónustunnar á Kleppi árið 2019. vísir/Vilhelm

Fjöldi einstaklinga á biðlista eftir þjónustu átröskunarteymis Landspítalans hefur sjöfaldast á fjórum árum.

Samkvæmt svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata bíða nú 84 meðferðar en árið 2016 voru tólf á biðlista. 

Bíðtíminn hefur einnig margfaldast. Nú bíður fólk að meðaltali í átján til tuttugu mánuði eftir þjónustu en fyrir fjórum árum var biðtíminn að meðaltali tveir til fjórir mánuðir. 

Í svarinu kemur jafnframt fram að stöðugildum hafi fækkað á deildinni og er það ein af ástæðum þess að biðtíminn hefur lengst. 

Ástæður þess að biðtíminn hefur lengst eru sagðar margþættar. Vísað er í aukna spurn eftir þjónustunni og húsnæðisvanda eftir að mygla kom upp í húsnæði teymisins á Landspítala áður en starfsemin var flutt á Klepp.

Í svari Svandísar Svavarsdóttur kemur fram að húsnæðismál teyma á geðsviði Landspítala, sem búið hafa við ófullnægjandi húsakost, séu til skoðunar í heilbrigðisráðuneytinu.vísir/Vilhelm

Í svarinu kemur fram að á síðastliðnum fimm árum hafi alls 490 einstaklingar fengið þjónustu á dag- og göngudeild átröskunar á Landspítala. Meiri hlutinn voru konur, eða alls 430, en sextíu karlar. 

Á hverju ári hefur teymið sinnt á bilinu 150 til 200 einstaklingum sem eru allt frá átján ára til yfir sjötugs. Flestir voru á aldrinum 20 til 29 ára, eða 394 einstaklingar.

Átröskunarteymi barna- og unglingageðdeildar, sem fellur undir kvenna- og barnaþjónustu Landspítala, sinnir börnum upp að nítján ára aldri og eru í þessari tölfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×