Höfnin á Árskógssandi er tenging Hríseyjarferjunnar við fastalandið. Atvinnulífið í þorpinu snerist þó um sjávarútveg, líka hjá þeim Agnesi Önnu Sigurðardóttur og Ólafi Þresti Ólafsssyni, sem var skipstjóri.

„Ef þú varst ekki á sjó, þá gastu eiginlega bara flutt í burtu. En hann meiðir sig illa á fæti 2003 og gat ekki stundað sjómennskuna,“ segir Agnes í þættinum Um land allt, en brot úr honum var sýnt í fréttum Stöðvar 2.
„Þannig að við vorum í tvö ár að hugsa hvað við gætum gert. Ég vildi ekki flytja, vildi bara vera hér, þannig að við urðum að finna okkur eitthvað nýtt.“

Þau stofnuðu fyrsta handverksbrugghúsið á Íslandi, Bruggsmiðjuna Kalda, árið 2006. Fyrir fjórum árum bættu þau við bjórböðum og veitingastað. Starfsmenn í vetur eru um tuttugu talsins en fjölgar upp í þrjátíu yfir sumartímann. Saman eru Bruggsmiðjan og Bjórböðin núna orðin stærsta fyrirtækið á Árskógsströnd.
„Þetta er búið að vera mikið ævintýri,“ segir Agnes.

Þau hjónin eiga fimm börn og hafa flest starfað við fyrirtækið, þeirra á meðal sonurinn Sigurður Bragi, sem er bruggmeistari.
„Þegar við erum að opna þá er ég fimmtán og byrjaði að brugga þegar ég var sextán ára,“ segir Sigurður.
-Er þetta gott uppeldi; að láta börnin fara að brugga sextán ára gömul?
„Ja, hann er allavega mjög góður bruggari. Þannig að: Já, ég held að það gefi bara góða raun,“ svarar mamman.
Fjallað er um mannlífið á Árskógsströnd í þættinum Um land allt.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.