Innlent

Enginn greindist innanlands

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá sýnatöku Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Frá sýnatöku Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Enginn greindist með kórónuveiruna hér á landi í gær. 

Þetta staðfesti Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við fréttastofu og vísar til bráðabirgðatalna almannavarna.

Samkvæmt þeim sömu tölu greindist þá einn á landamærunum og er mótefnamælingar beðið í því tilfelli, svo hægt sé að skera úr um hvort um virka Covid-19 sýkingu er að ræða eða ekki.

Covid.is, upplýsingasíða almannavarna og landlæknis um framgang kórónuveirufaraldursins hér á landi, er ekki uppfærð um helgar. Nánari upplýsingar um fjölda sýna, nýgengi og aðrar ítarlegar upplýsingar verða því aðgengilegar á vefnum klukkan ellefu á mánudag.

Sjö dagar, sjö smitaðir

Á síðustu sjö dögum hafa sjö manns greinst með veiruna hér á landi. Allir hinir smituðu eiga það sameiginlegt að hafa verið í sóttkví við greiningu.

Af þessum sjö eru þá fjórir sem greindust í fyrradag, en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að veikindi þessara fjögurra megi rekja til einstaklings sem kom frá útlöndum, greindist með Covid-19 á landamærum, fór í einangrun en tókst samt að smita sitt nánasta fólk.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×