Guðmundur Franklín Jónsson, athafnamaður í ferðaþjónustu og fyrrum forsetaframbjóðandi, tilkynnti fyrirhugaða stofnun flokksins í október. Fram kemur í tilkynningu frá Guðmundi að búið sé að úthluta framboðinu listabókstafnum O og að stofnfundur flokksins verði auglýstur síðar.
Að sögn Guðmundar mun flokkurinn berjast „fyrir fullveldi landsins, beinu lýðræði, auðlindum í eigu þjóðar og gegn spillingu.“
Menn geti alltaf skipt um skoðun
Guðmundur Franklín sagði í samtali við Vísi í september að margir hafi komið að máli við sig eftir forsetakosningarnar í fyrra og viljað ýta honum út í pólitíkina.
„Það sé kannski það eina rétta og ég hef tekið vel í það. Það er ekkert að fara að gerast í ferðabransanum þannig að ég hef góðan tíma. Maður verður að verja honum vel,“ sagði Guðmundur en hann hafði áður neitað því að forsetaframboð hans væri upptaktur að þátttöku í stjórnmálum.
„Ég var spurður að því þrisvar sinnum. Og sagði nei. En í lýðræðisþjóðfélagi geta menn skipt um skoðun og nú er ég að bræða það með mér – valið er mitt.“
Guðmundur hlaut 7,8 prósent atkvæða í forsetakosningunum í fyrra á móti 92,2 prósentum Guðna Th. Jóhannessonar.