Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni á fjórða tímanum. Þar segir að vatnshæðamælar við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum sýni að vatnshæð hafi lækkað frá því síðdegis í gær.
„Sú lækkun getur verið vísbending um að áin sé að bræða krapann ofan af sér og losa þannig hægt og rólega um krapann á yfirborðinu,“ segir í tilkynningu.
Vatnshæðin við brúna sé enn þá mjög há vegna krapans í ánni. Áin renni engu að síður undir honum og vatnsrennsli eðlilegt miðað við árstíma.
„Framvinda þessa atburðar veltur því að miklu leyti á veðurástandi á svæðinu næstu daga, en þar er áfram gert ráð fyrir talsverðu frosti. Á þessum tímapunkti er þó ekki hægt að útiloka að aðrar krapastíflur séu að myndast sunnar í ánni,“ segir í tilkynningu.
Sérfræðingar frá Veðurstofunni fara í eftirlistflug til að kanna betur aðstæður í ánni nú síðdegis. Óvissustig er enn í gildi og svæðið er áfram vaktað. Vegurinn er lokaður en gert er ráð fyrir að fyrir liggi hvort hann verði opnaður á ný eftir stöðufund viðbragðsaðila í fyrramálið, miðvikudaginn 3. febrúar.