Fótbolti

Nike samdi við átta ára gamlan fótboltastrák

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kauan Basile fékk fullt af Nike vörum sendar heim eftir að hann skrifaði undir samninginn.
Kauan Basile fékk fullt af Nike vörum sendar heim eftir að hann skrifaði undir samninginn. Instagram/@kauan.basile

Kauan Basile verður bara ellefu ára gamall þegar fyrsti samningurinn hans við Nike rennur úr.

Það er ekki slæmt að vera á undan stórstjörnum eins og Lionel Messi og Neymar og hvað þá þegar þú ert bara átta ára gamall.

Kauan Basile þykir mjög efnilegur knattspyrnumaður og það þykjast fróðir menn sjá þótt að hann sé aðeins átta ára gamall.

Kauan Basile varð nefnilega á dögunum yngsti fótboltamaðurinn til að gera samning við íþróttavöruframleiðandann Nike.

Kauan Basile er að spila með barnaliði Santos í Brasilíu en það var Diario Ole sem sagði frá því að strákurinn hafi gert þriggja ára samning við Nike.

Með þessu þá bætir hann gamla metið sem var í eigu Rodrygo. Rodrygo er nú hjá Real Madrid en hann samdi við Nike ellefu ára gamall.

Neymar var þrettán ára þegar hann gerði sinn fyrsta samning við Nike og Lionel Messi var fimmtán ára þegar hann samdi fyrst við bandaríska íþróttavöruframleiðandann.

Basile spilar með undir níu ára futsal liði Santos og var árið 2019 valinn besti leikmaðurinn á Sau Paulo Futsal meistaramótinu.

Á Instagram síðu Kauan Basile stendur: 19.01.2021 er mjög sérstakur dagur fyrir mig og mína fjölskyldu því þá skrifaði ég undir minn fyrsta samning við Nike, átta ára gamall.

Basile er með fótboltahæfileikana í blóðinu því bæði faðir hans og afi voru atvinnumenn í fótbolta.

Samningurinn er til þriggja ára með möguleika á tveimur árum til viðbótar. Þá væri Kauan Basile orðinn þrettán ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×