Í dagbók lögreglu segir að gestir á dansleiknum hafi farið inn á veitingastaðinn við hliðina á og borið þaðan áfengi og aðrar veitingar yfir á ballið.
Um það bil 25 aðilar voru kærðir fyrir brot á sóttvarnalögum en tuttugu manna samkomubann er nú í gildi.
Auk þess voru veitingastaðurinn og ábyrgðarmaður hans kærðir fyrir brot á áfengislögum, það er að áfengi hafi verið borið út af veitingastað. Samkomunni var slitið og fólkinu vísað út.
Laust eftir klukkan hálffimm í morgun var síðan tilkynnt um eignaspjöll hjá verslun í austurbænum. Þar hafði hurð verið spennt upp baka til í húsinu.
Í dagbók lögreglu segir að tengiliður hafi farið á vettvang og taldi hann að engu hefði verið stolið.
Fréttin hefur verið uppfærð.