Körfubolti

„Það er hægt að tína til nokkrar af­sakanir og búa til eina góða“

Árni Jóhannsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson í baráttunni í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson í baráttunni í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Leiðtogi Valsmanna, Jón Arnór Stefánsson var spurður hreint út í það hver munurinn á liðunum hefði verið í dag þegar Valur tapaði fyrir Njarðvík í fimmtu umferð Dominos deildar karla 76-85.

„Það var eins og að við hefðum verið að spila fyrir tveimur dögum. Þeir voru bara með miklu meiri orku en við í öllum þeirra aðgerðum og við áttum í vandræðum með að stoppa þá varnarlega í kvöld. Það var aðallega það,“ sagði Jón Arnór að leik loknum.

„Þegar við náðum loksins að skora, sem var mjög erfitt, þá náðum við ekki stoppum hinum megin. Þetta var lítið og lélegt framlag frá of mörgum. Ég var miklu ánægðari með Bilic í leiknum og Kristó var flottur en við hinir vorum langt frá því að vera góðir. Við erum ekki að fara að vinna marga leiki ef frammistaðan er svona.“

Jón minntist á að orkan hafi verið meiri hjá Njarðvíkingum og því var spurt hvort hann sæi einhverja ástæðu fyrir því, til dæmis ferðalög liðsins eða að það sé stutt á milli leikja.

„Það getur vel verið það sé það. Við erum eitthvað stirðir og eitthvað ryðgaðir og ekki nógu vel pússaðir saman. Já það er hægt að tína til nokkrar afsakanir og búa til eina góða. Það er eiginlega enginn tími til að pæla eitthvað mikið í því eða stressa sig, ég held ekki, við sýndum það fyrir norðan að við settum saman góða vörn þegar á þarf að halda og fundum það ekki í kvöld.“

Að lokum var Jón Arnór spurður að því hvað hans menn þyrftu að ræða á milli leikja.

„Ég hugsa að það sé varnarleikurinn. Við verðum þannig lið sem þarf að ná stoppum til að vinna leiki. Við erum ekki með marga sem geta búið til og hent upp 30 stigum á hverju einasta kvöldi eins og staðan er í dag. Þannig að við þurfum að finna leiðir til að vera sterkir varnarlega og finna leiðir til að setja boltann í körfuna. Við vorum langt frá því að ná því í kvöld,“ sagði Jón Arnór Stefánsson að lokum eftir níu stiga tap Vals gegn Njarðvík í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×