Innlent

Heyrir af því að fólk með einkenni fari ekki í sýnatöku vegna fárra smita í samfélaginu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Víðir Reynisson óttast að „svikalogn“ ríki nú í kórónuveirufaraldrinum. Hann segir að vísbendingar séu um að fólk telji ekki ástæðu til að fara í sýnatöku vegna fárra smita sem greinast.

Einn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær og var sá í sóttkví. Þrír greindust á landamærunum en ekki er vitað hvort um virkt smit var að ræða. Enginn greindist með veiruna í fyrradag. Þrátt fyrir fá smit segist yfirlögregluþjónn almannavarna óttast að um svokallað svikalogn sé að ræða.

„Við erum að heyra af því að það sé fólk að fá einkenni en af því að það eru svo fáir að greinast þá telji fólk miklu líklegra að það sé bara með kvef og mæti þar af leiðandi ekki í sýnatöku. Þetta getur verið varasamt og getur verið grunnur fyrir það að sýkingin eða veiran nái að grassera í einhvern tíma í samfélaginu og brjótist svo út,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.

Auðvelt að komast að í sýnatöku

Hann hvetur alla með einkenni að skrá sig í sýnatöku. Auðvelt sé að komast að um allt land.

„Ef það eru að grassera einhverjar sýkingar, ef covid er að grassera í samfélaginu án þess að við vitum af því þá getur það gerst mjög hratt að það komi í bakið í okkur og þá erum við komin í einhverja stöðu sem enginn hefur áhuga á.“

Vilja staldra við

Víðir segir frekari tilslakanir ekki bráðnauðsynlegar þrátt fyrir að við séum á réttri leið.

„Það eru flestir farnir að geta farið í líkamsræktina og skólarnir eru auðvitað komnir á fullt skrið þannig þa er búið að opna ansi mikið þannig frekari tilslakarnir eru kannski ekkert bráðnauðsynlegar til þess að halda samfélaginu vel gangandi og þess vegna viljum við staldra við núna og sjá hvernig þetta fer,“ sagði Víðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×