Körfubolti

Ekki einu sinni stórleikur Zions gat stöðvað sigurgöngu Utah Jazz

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Donovan Mitchell og félagar í Utah Jazz eru á miklu skriði.
Donovan Mitchell og félagar í Utah Jazz eru á miklu skriði. AP/Rick Bowmer

Donovan Mitchell og félagar í Utah Jazz eru að gera frábæra hluti í NBA deildinni í körfubolta og unnu einn sigurinn í nótt. Nikola Jokic þurfti bara þrjá leikhluta á móti Thunder.

Þetta var róleg nótt í NBA-deildinni því þá fóru fram aðeins tveir leikir.

Donovan Mitchell var með 28 stig þegar Utah Jazz vann 118-102 sigur á New Orleans Pelicans. Þetta var sjötti sigur liðsins í röð og sá tíundi í fjórtán leikjum tímabilsins.

Mitchell skoraði fjórar af 21 þriggja stiga körfu Utah liðins en Jordan Clarkson var með 18 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar, Joe Ingles kom með 15 stig inn af bekknum og Rudy Gobert var með 13 stig, 18 fráköst og 3 varin skot.

Zion Williamson átti stórleik annað kvöldið í röð en það dugði skammt. Zion var með 32 stig á 35 mínútum í leiknum og hitti úr 14 af 19 skotum sínum. Hann er yngsti leikmaður sögunnar til að ná tveimur þrjátíu stiga leikjum í röð með yfir 70 prósent skotnýtingu.

Nikola Jokic var með 27 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar þrátt fyrir að spila bara 28 mínútur og ekkert í fjórða leikhluta þegar Denver Nuggets burstaði lið Oklahoma City Thunder 119-101.

Jokic mætti nýklipptur og nýrakaður til leiks en hélt áfram að spila eins og kóngurinn hjá Denver Nuggets liðinu. Þessi 211 sentímetra hái Serbi er efstur í NBA-deildinni í stoðsendingum og er með þrennu að meðaltali í leik í fyrstu þrettán leikjum sínum á tímabilinu.

Monte Morris skoraði 15 stig fyrir Denver og Paul Millsap var með 13 stig og 12 fráköst. Luguentz Dort hélt Oklahoma City Thunder inn í leiknum framan af með því að skora 15 af 20 stigum sínum í fyrri hálfleiknum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×