Erlent

Sérfræðingar WHO mættir til Wuhan

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Wuhan á ferð og flugi. Nýja kórónuveiran greindist fyrst í mönnum í borginni.
Íbúar Wuhan á ferð og flugi. Nýja kórónuveiran greindist fyrst í mönnum í borginni. AP/Ng Han Guan

Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) eru komnir til Wuhan í Kína, þar sem nýja kórónuveiran greindist fyrst í mönnum. Markmið þeirra er að varpa ljósi á hvernig veiran barst fyrst í menn en verkefnið hefur mætt andstöðu í Kína.

Vísindamennirnir lentu í Kína þann 6. janúar og var þeim þá meinuð innganga í landið. Viðræður um verkefnið á milli WHO og yfirvalda í Kína höfðu þá staðið yfir í marga mánuði.

Rúmt ár er síðan veiran greindist fyrst í mönnum.

Sjá einnig: Vísindamönnum WHO neitað um inngöngu í Kína

Meðlimir ríkisstjórnar Donalds Trump, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, hafa beint spjótum sínum að Kína vegna faraldursins en Bandaríkin hafa komið hvað verst út vegna hans.

Ráðamenn í Kína hafa verið ósáttir við þær ásakanir og fregnir um að þeir hafi haldið vitlaust á málum í upphafi faraldursins sem tæplega tvær milljónir manna hafa dáið vegna, og hafa gefið í skyn að veiran hafi í raun borist til Kína erlendis frá.

Þá eru ráðamenn í Kína sagðir hafa takmarkað verulega flæði upplýsinga og rannsóknir um mögulegan uppruna Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur. Vísindamenn sem hafa reynt að rannsaka uppruna sjúkdómsins í Kína eru sagðir hafa orðið fyrir miklum hindrunum frá hinu opinbera.

Alls lentu þrettán vísindamenn í Wuhan í morgun og verða þeir í fjórtán daga sóttkví, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Á þeim tíma munu þeir hefja vinnu sína í gegnum fjarfundabúnað og kínverska vísindamenn.

AP hefur eftir opinberum talsmanni að vísindamenn WHO muni „deila skoðunum sínum“ með kínverskum vísindamönnum en hann mun ekkert hafa sagt um það hvort þeir fengju að taka sýni eða safna vísbendingum á annan hátt.

Yfirvöld í Kína hleyptu vísindamönnum frá WHO inn í landið í júlí en þeir voru skikkaðir í fjórtán daga sóttkví og var meinað að fara til Wuhan. Samkvæmt New York Times óttast sérfræðingar að niðurstaðan verði svipuð aftur. Pólitík muni koma í veg fyrir raunverulega rannsókn.


Tengdar fréttir

Sin­ovac með rétt rúm­lega 50 prósent virkni

Kínverska bóluefnið Sinovac sem þróað var gegn Covid-19 virðist aðeins hafa rétt rúmlega 50 prósent virkni ef marka má niðurstöður klínískra rannsókna í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×