Reikna má með að þessi mál og fleiri verði áberandi í fréttum á árinu sem nú er nýhafið þó að ýmislegt fleira muni að sjálfsögðu einnig bera á góma.
Vísir hefur tekið saman brot af því markverðasta sem verður á dagskrá á erlendum vettvangi á árinu 2021 sem er nú gengið í garð. Vart þarf að taka fram að listinn er á engan hátt tæmandi.
Sömuleiðis er rétt að minnast á að heimsfaraldur kórónuveirunnar umturnaði flestu því sem búið var að skipuleggja á nýliðnu ári og því rétt taka flestu með einhverjum fyrirvara. Tímasetningar gætu þannig breyst, viðburðir verið felldir niður eða farið fram með breyttu sniði. Hver veit?
Janúar
- Lyfjastofnun Evrópu tekur ákvörðun um hvort að veita skuli bóluefni Moderna markaðsleyfi í Evrópu á fundi á morgun, 6. janúar.
- Tæknisýningin CES 2021 fer fram í netheimum dagana 11. til 14. janúar.
- Heimsmeistaramót karla í handbolta hefst í Egyptalandi þann 13. janúar og stendur til 31. janúar. Íslendingar eru meðal þátttökuþjóða og eru með Portúgölum, Alsíringum og Marokkómönnum í riðli.
- Joe Biden mun taka við embætti Bandaríkjaforseta af Donald Trump. Biden sver embættiseið í Washington DC þann 20. janúar.
- Forsetakosningar fara fram í Portúgal þann 24. janúar.
Febrúar
- Ofurskálin (Super Bowl) fer fram þann 7. febrúar í Tampa í Flórída. Tónlistarmaðurinn The Weeknd mun halda uppi fjörinu í hálfleik.
- Golden Globe verðlaunahátíðin fer fram þann 28. febrúar.
Mars
- Þingkosningar fara fram í Hollandi þann 17. mars.
- Þingkosningar fara fram í Ísrael þann 23. mars. Kosningarnar eru þær fjórðu í landinu á tveimur árum.
Apríl
- Raul Castro mun láta af embætti formanns Kommúnistaflokksins á Kúbu í apríl. Samfelld valdatíð bræðranna Fídels og Rauls Castro í Kommúnistaflokknum tekur því enda.
- Óskarsverðlaunahátíðin fer fram í Los Angeles þann 25. apríl. Hátíðin er sú 93. í röðinni.
Maí
- Sveitarstjórnarkosningar fara fram víða í Bretlandi 6. maí. Meðal annars verður kosið um borgarstjóra í London og fulltrúa á velska og skoska þingsins.
- Eurovision fer fram í Rotterdam í Hollandi dagana 18. til 22. maí. Daði Freyr verður fulltrúi okkar Íslendinga.
- Tunglmyrkvi verður sjáanlegur víða í Asíu, Eyjaálfu, Norður og Suður-Ameríku 26. maí.
- Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fer fram á Atatürk-vellinum í Istanbúl þann 29. maí.
Júní
- Hring- og deildarmyrkvi á sólu 10. júní, sýnilegur í Norður-Ameríku og austast í Rússlandi.
- Evrópumótið í fótbolta, sem átti að fara fram síðasta sumar en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins, fer fram víða í álfunni, dagana 11. júní til 11. júlí. Opnunarleikurinn verður leikur Tyrklands og Ítalíu og mun að óbreyttu verða spilaður í Róm.
- Forsetakosningar fara fram í Ísrael þann 18. júní.
- Forsetakosningar fara fram í Íran þann 18. júní.
Júlí
- Þingkosningar fara fram í Mexíkó 6. júlí.
- Ólympíuleikarnir í Tókýó, sem áttu að fara fram síðasta sumar, verða settir 23. júlí og standa til 8. ágúst.
Ágúst
- Paralympics, Ólympíuleikar fatlaðra, fara fram dagana 24. ágúst til 5. september í Tókýó.
September
- Þingkosningar fara fram í Noregi 13. september.
- Þingkosningar fara fram í Rússlandi 19. september.
- Þingkosningar fara fram á Íslandi 25. september.
- Þingkosningar fara fram í Þýskalandi 26. september. Rúmlega fimmtán ára valdatíð Angelu Merkel Þýskalandskanslara mun þar með ljúka þegar búið er að mynda nýja ríkisstjón, en hún lýsti því yfir á þarsíðasta ári að þetta yrði hennar síðasta kjörtímabil sem kanslari.
Október
- Heimssýniningin í Dúbaí, sem átti upphaflega að fara fram á síðasta ári, verður sett 1. október.
- Þingkosningar fara fram í Japan 22. október.
Nóvember
- Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram í Glasgow í Skotlandi dagana 1. til 12. nóvember.
Desember
- Heimsmeistaramót kvenna í handbolta fer fram á Spáni, dagana 2. til 19. desember.
- Aðfangadagur jóla, 24. desember verður á föstudegi að þessu sinni.