Körfubolti

Þurftu að spila körfuboltaleiki sína með grímur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Boston University þurftu að spila með grímur í gær.
Leikmenn Boston University þurftu að spila með grímur í gær. Twitter/@@TerrierWBB

Leikmenn körfuboltaliða Boston University hafa líklega aldrei spilað körfuboltaleik eins og í gær.

Það er algengt að leikmenn þurfi að setja upp grímur utan vallar vegna kórónuveirufaraldursins en nú hafa forráðamenn háskólans í Boston gengið einu skrefi lengra.

Boston University tók nefnilega þá ákvörðun í gær að láta leikmenn körfuboltaliða skólans spila leiki sína með grímur.

Bæði Boston skólaliðin mættu Holy Cross í gær og hver einast leikmaður Boston liðanna þurftu að spila með grímu yfir munni og nefi.

Leikur kvennaliðanna fór fram á heimavelli Boston University og af þeim sökum spiluðu meira að segja bæði liðin með grímur.

Aðeins karlalið Boston University spilaði aftur á móti með grímur í leiknum á móti Holy Cross.

Karlaliðin mætast aftur í kvöld og þá á heimavelli Boston University. Í þeim leik munu bæði liðin spila með grímu.

Þetta voru fyrstu leikir liðanna á þessu tímabili en öllum leikjum fyrir áramót var aflýst vegna heimsfaraldursins.

Boston University liðin létu grímurnar heldur ekki trufla sig. Karlaliðið vann sinn leik 83-76 og kvennaliðið vann öruggan 76-54 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×