Íslenski boltinn

Sigríður Lára til liðs við Val

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sigríður Lára Garðarsdóttir komin í rautt.
Sigríður Lára Garðarsdóttir komin í rautt. Valur

Knattspyrnukonan Sigríður Lára Garðarsdóttir hefur fært sig um set og er gengin til liðs við Val eftir að hafa leikið með FH á síðustu leiktíð.

Sigríður Lára, sem hefur lengst af sínum ferli leikið með uppeldisfélagi sínu, ÍBV, gerir tveggja ára samning við Hlíðarendaliðið.

Sigríður er 26 ára gömul og var í lykilhlutverki í liði FH á síðustu leiktíð þegar liðið féll úr Pepsi Max deildinni. Hún á 20 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd.

Valskonur hafa farið mikinn á leikmannamarkaðnum í vetur en Sigríður Lára er fjórði leikmaðurinn sem gengur í raðir félagsins. Áður höfðu þær Mary Alice Vignola, Sólveig Jóhannesdóttir Larsen og Anna Rakel Pétursdóttir gengið til liðs við Val.

Ljóst að Valur mun mæta með mikið breytt lið til leiks næsta sumar því liðið hefur einnig misst fjóra leikmenn sem léku stórt hlutverk á síðustu leiktíð en þær Hallbera Guðný Gísladóttir, Hlín Eiríksdóttir, Guðný Árnadóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir hafa allar yfirgefið Val í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×