Landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson segist gjarnan vilja byrja að spila körfubolta aftur og líst ágætlega á þær hugmyndir sem uppi eru um að klára tímabilið í Þýskalandi fyrir lok júní.
Forráðamenn félaganna í efstu deild Þýskalands hafa ákveðið að blása af deildarkeppnina og freista þess að halda tíu liða úrslitakeppni á þremur vikum, á einum og sama leikstað sem tilkynna á um næsta mánudag. Það er því útlit fyrir að Martin og félagar í Alba Berlín, sem urðu bikarmeistarar í vetur, fái tækifæri til að berjast um þýska meistaratitilinn þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn. Hins vegar hefur þýska deildin tekið skýrt fram að heilsa leikmanna og þjálfara verði sett í forgang.
Í Sportinu í dag sagðist Martin varla hafa vitað við hverju hann ætti að búast síðustu vikur, og um tíma reiknað með að tímabilinu væri lokið, en hann hefur dvalið hér á landi.
„Mann langar mikið að fara í körfubolta aftur en ég veit ekki alveg hvernig hugarfarið er hjá mér. Ég var bjartsýnn þegar ég kom fyrst hingað heim á að ég væri að fara aftur út [að spila]. Svo var handboltanum slúttað í Þýskalandi þannig að þá fór maður að kúpla sig út, en svo núna allt í einu er aftur kominn einhver fílingur fyrir því að þetta sé að fara að gerast. Ég er bara í einhverju móki, reyni að halda mér við og sjá hvað verða vill,“ segir Martin. Samningur hans við Alba Berlín er að renna út.
„Ég er með samning fram í júní. Nýjasta tillagan var að við áttum að fá 80% borgað ef að ekki yrði meira spilað, en 85% ef að það yrði spilað. Þetta skiptir því ekki miklu máli fyrir mig,“ segir Martin og bætir við að lausn verði fundin á því ef hann þurfi að spila fram yfir samningstíma sinn:
„Þetta yrðu einhverjar samningaviðræður sem að umboðsmaðurinn minn færi í en ég er alveg til í að fara út og spila körfubolta. Það væri gaman að láta reyna á þetta og mig langar til að verða þýskur meistari. Ef að það gengur upp þá væri þetta fullkomið tímabil, þannig séð,“ segir Martin sem auk þess að verða þýskur bikarmeistari hefur látið mikið til sín taka í EuroLeague, sterkustu félagsliðakeppni Evrópu, í vetur.
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.