Skoðun

Látum tíu þúsund blóm blómstra

Steinunn Þóra Árnadóttir skrifar

Það er margt sem maður lærir við það að takast á við heimsfaraldur. Fáa hefði líklega getað órað fyrir því hvað hliðarverkanir sóttvarnaraðgerða geta verið miklar og teygt sig inn á mörg svið tilverunnar. Ef einhver hefði sagt mér í byrjun árs að um páska yrði beinlínis bannað að fara í klippingu hefði ég átt bágt með að trúa því. Slíkar ráðstafanir hafa þó reynst nauðsynlegur þáttur í því að ná tökum á útbreiðslu veirunnar.

Þannig þurfti fjöldi lítilla fyrirtækja að loka dyrum sínum í apríl með því algjöra tekjutapi sem því fylgir. Mörg fyrirtæki sem þurftu að skella í lás eru lítil fyrirtæki á borð við hárgreiðslu-, nudd og snyrtistofur. Lítil fyrirtæki eru líklegri en þau stóru til að vera í rekstri og eigu kvenna. Þetta eru fyrirtæki sem höfðu ekki val um að halda sínu striki heldur var beinlínis gert að loka í þágu sóttvarna. Þess vegna var bæði mikilvægt og gleðilegt að aðgerðir sérstaklega í þágu þessara fyrirtækja voru kynntar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í gær. Fyrirtæki sem skikkuð voru til lokunar og orðið hafa fyrir minnst 75% tekjutapi munu fá sérstakan styrk. Þessi fyrirtæki, sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu hafa orðið fyrir miklu búsifjum og er brýnt að styðja þau á erfiðum tímum.

Önnur fyrirtæki, sem eru í lægð en hafa þó ekki beinlíns þurft að loka, munu einnig fá stuðning í formi stuðningslána, en áætlað er að átta til tíu þúsund íslensk fyrirtæki uppfylla skilyrði um þau. Um er að ræða hagstæð lán, á meginvöxtum Seðlabankans (1,75%) sem eru nokkrum skilyrðum háð, svo sem að tekjur á 60 daga tímabili árið 2020 hafi verið minnst 40% lægra en á sama tímabili í fyrra.

Með þessum og öðrum aðgerðum sem gripið hefur verið til á sviði efnahagsmála, til þess að bregðast við efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldursins er verið að standa vörð um fólkið í landinu og afkomu þess. Með styrkjum og hagstæðum lánum er verið að standa vörð um gríðarlega fjölda starfa og styðja þannig við að í samfélaginu verði áfram fjölbreytt mannlíf og atvinnustarfsemi.

Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×