Körfubolti

Flýta heimildarmyndinni um Michael Jordan og 1997-98 Bullsliðið um tvo mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan fagnar sjötta meistaratitli sínum með fólkinu í Chicago borg eftir sigurinn í lokaúrslitunum árið 1998.
Michael Jordan fagnar sjötta meistaratitli sínum með fólkinu í Chicago borg eftir sigurinn í lokaúrslitunum árið 1998. Getty/Steve Woltmann

Íslenskir sem erlendir NBA-áhugamenn fagna örugglega fréttum næturinnar frá Bandaríkjunum þar sem að ein mest spennandi heimildarmynd um NBA í langan tíma kemur út eftir aðeins „nokkra“ daga í stað þess að koma út eftir meira en tvo mánuði.

ESPN og ABC gefa út þessa tíu þátta heimildarmynd og hafa verið að auglýsa hana á síðustu misserum sem hefur um leið byggt upp mikinn spenning með áhugamanna.

Það er ljóst að það er mikil eftirspurn eftir nýju íþróttaefni nú þegar kórónuveiran hefur stöðvað allar helstu íþróttadeildir og íþróttakappleiki heimsins.

NBA-áhugamenn eru þar engin undantekning en á þessum tíma væri farið að styttast vel í úrslitakeppnina sem nær síðan vanalega hámarki í maí og júní.

Fyrsti þátturinn af „The Last Dance“ heimildarmyndinni hefur nú verið færður til 19. apríl næstkomandi en áður var á áætlun að hefja sýningar í júní. Það hefur ekki verið gefið út hvernig framhaldið muni líta út.

1997-98 tímabilið var það síðasta sem Michael Jordan spilaði með Chicago Bulls liðinu en á því vann hann sinn sjötta meistaratitil og endaði lokaleikinn á því að tryggja Bulls liðinu titilinn með síðasta skoti leiksins.

Phil Jackson kallaði tímabilið „The Last Dance“ eða „Síðasta dansinn“ af því að hann vissi að liðið væri að fara að leysast upp eftir það enda voru svo margir leikmenn að renna út á samning.

Svo fór að Chicago Bulls tefldi fram allt öðru og glænýju liði næsta tímabil á eftir og bæði Phil Jackson, Michael Jordan, Scottie Pippen og fleiri voru þar hvergi sjáanlegir.

Heimildarmyndin mun sína gríðarlega mikið af óbirtu myndefni frá þessu 1997-98 tímabili og þá sérstaklega frá því sem gekk á bak við tjöldin. Það verða síðan fullt af viðtölum við alla sem komu að þessu liði og þar á meðal við Michael Jordan.

Margir eru sérstaklega spenntir fyrir því hvort þeir fái að sjá meira af því hvernig Michael Jordan var á bak við tjöldin og hvernig hann hegðaði sér sem liðsfélagi.

Hér fyrir neðan má sjá eina af auglýsingunum um heimildarmyndina þegar stefnan var á það að gefa hana út í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×