Innlent

Sóttvarnalæknir segir hugmynd læknanna á norðausturhorni landsins óraunhæfa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fræðilega og sögulega sé það skammgóður vermir að loka sig af í faraldri eins og þeim sem nú geisar vegna kórónuveirunnar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að fræðilega og sögulega sé það skammgóður vermir að loka sig af í faraldri eins og þeim sem nú geisar vegna kórónuveirunnar. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að hugmynd lækna á norðausturhluta landsins um að loka tilteknu landsvæði fyrir almennri umferð svo hefta megi útbreiðslu kórónuveirunnar sé algjörlega óraunhæf.

Fræðilega og sögulega séð sé það skammgóður vermir að loka sig af þar sem faraldurinn muni koma aftan að fólki síðar, nema lokunin sé í mjög langan tíma, eitt til tvö ár.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi um kórónuveirufaraldurinn í dag.

Á fundinum var meðal annars spurt út í óskir tveggja heilsugæslulækna á norðausturhorninu, þeirra Sigurðar Halldórssonar og Atla Árnasonar, um að almenn umferð inn á þeirra þjónustusvæði, sem nær frá Jökulsá á Fjöllum við Ásbyrgi að Brekknaheiði sunnan við Þórshöfn, verði stöðvuð.

Höfðu þeir lagt til að vöruflutningar inn á svæðið yrðu háðir ströngum skilyrðum og að allir sem kæmu inn á svæðið yrði gert að fara í tveggja vikna sóttkví, ellegar verða vísað á brott. Bentu þeir á beiðni sinni til stuðnings að enn hefði ekki neitt smit greinst á svæðinu.

Ósk læknanna var hafnað eftir fund aðgerðastjórnar á Norðurlandi eystra með Þórólfi og Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Var Þórólfur spurður að því á upplýsingafundinum í dag hvers vegna læknarnir megi ekki gera þessa tilraun á þessu afmarkaða svæði.

„Menn verða að hafa einhver rök fyrir því að vilja gera þetta því það getur kostað sveitarfélagið og svæðið mjög mikið að gera þetta. Þessar tillögur sem komu fram voru mjög óraunhæfar. Í fyrsta lagi að leyfa fólki að fara út af svæðinu, leyfa fólki aftur að koma inn á svæðið og fara í sóttkví í einhvern ákveðinn tíma,“ sagði Þórólfur og hélt áfram:

„Við vitum það að stór hluti er einkennalítill, einkennalaus. Þetta er algjörlega í mínum huga óraunhæf aðgerð og eins og ég sagði áður þá er það bæði stutt fræðilegum rökum og sögulegum rökum. Ef menn vilja vernda þennan hóp núna og halda að þeir geti gert það með þessum aðgerðum, kannski myndi það takast, þá myndu þeir fá hann aftur og hvað ætla menn að gera þá?“

„Faraldurinn mun koma í bakið á okkur fyrr eða síðar“

Við upphaf fundarins hafði sóttvarnalæknir einmitt rætt svokallað samgöngubann, það er að takmarka samgöngur á milli landshluta og jafnvel loka tilteknum svæðum alveg fyrir almennri umferð.

„Ég vil ítreka það sem ég hef sagt áður og sagði í gær að fræðilegar rannsóknir á samgöngubanni sýna mögulega árangur af samgöngubanni ef samgöngur eru heftar að minnsta kosti 99 prósent í töluvert langan tíma. En jafnvel með slíku banni þá er kannski besta vonin til þess að það megi fresta faraldrinum um einhverjar vikur en hann mun koma,“ sagði Þórólfur.

Benti hann í þessu samhengi á sögulegar staðreyndir í tengslum við spænsku veikina 1918.

„Þegar það tókst að hefta faraldurinn þann vetur í ýmsum landshlutum en sagan segir líka að á næstu árum og næstu vetrum á eftir þá kom faraldurinn upp annars staðar með alvarlegum afleiðingum. Þannig að ég held að það sé nokkuð góður samhljómur alls staðar um það að við munum ekki ná árangri með því að loka okkur einhvers staðar af. Það er mjög skammgóður vermir og faraldurinn mun koma í bakið á okkur fyrr eða síðar nema við lokum okkur af í mjög langan tíma, eitt til tvö ár.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×