Innlent

Einn með Covid-19 nú í öndunarvél

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi. Vísir/Vilhelm

Einn einstaklingur sem er smitaður af kórónuveirunni er nú í öndunarvél á gjörgæslu Landspítala. Alls liggja inni fimmtán smitaðir á Landspítala og tveir á gjörgæslu, þar af sá sem er í öndunarvél. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar nú síðdegis. Í gær hafði enginn enn þurft að fara í öndunarvél vegna veirunnar á Landspítala.

Líkt og áður hefur komið fram bættust 89 í hóp smitaðra síðasta sólarhringinn og staðfest smit hér á landi eru því alls 737. Hlutfall jákvæðra sýna sem greindist á veirufræðideild Landspítala síðasta sólarhringinn var 17% en hjá Íslenskri erfðagreiningu var hlutfallið 0,2%. Þar voru greind sýni þó öllu færri.

Þórólfur sagði á fundinum í dag að faraldurinn væri enn í vexti og að ný spá í reiknilíkaninu væri væntanleg í dag. Þá væri það afar ánægjulegt að hlutfall nýgreindra síðasta sólarhringinn í sóttkví var 57%, sem undirstriki mikilvægi slíkra aðgerða.

Þá er áfram fylgst sérstaklega með smitum hjá börnum yngri en tíu ára. Alls hafa fimmtán börn á þeim aldri greinst með Covid-19-sýkingu en alls hafa 400 sýni verið tekin. Hlutfall sýktra barna er því 3,7 prósent hjá veirufræðideild Landspítalans. Þá hefur ekkert barn af 434 greinst með veiruna í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Seðlabankinn bakkar ríkissjóð upp til að tryggja hag fyrirtækja og heimila

Seðlabankinn ætlar að kaupa ríkisskuldabréf fyrir allt að 150 milljarða á þessu ári til að tryggja greiðslugetu ríkissjóðs. Þetta er í fyrsta skipti sem bankinn kaupir ríkisskuldabréf og er aðgerðinni ætlað að byggja undir stefnu bankans í vaxtamálum þannig að heimili og fyrirtæki hafi til lengri tíma aðgang að lágum vaxtakjörum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×