Innlent

Binda vonir við að íslensk uppfinning geti nýst í rannsóknum tengdum Covid-19

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Johns Hopkins háskólasjúkrahúsið í Bandaríkjunum.
Johns Hopkins háskólasjúkrahúsið í Bandaríkjunum. Rob Carr/Getty

Læknar og vísindamenn við Johns Hopkins-háskólasjúkrahúsið í Bandaríkjunum vinna nú við rannsóknir á því hvort tæki úr smiðju íslenska fyrirtækisins Nox Medical, sem stundar svefnrannsóknir, geti nýst við meðferð Covid-sjúklinga sem leggja þarf inn á gjörgæslu.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í kvöld. Um er að ræða tæki sem læknar geta notað til þess að mæla öndun og súrefnismettun í rauntíma með mikilli nákvæmni.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að súrefnisinntaka sjúklinga í öndunarvél batni, séu þeir lagðir á magann. Ekki liggur fyrir hvaða áhrif það hefur á sjúklinga sem ekki eru í öndunarvél að liggja á maganum, en tækinu frá Nox Medical er einmitt ætlað að mæla það. Rannsóknin verður gerð á sjúklingum sem ekki eru komnir í öndunarvél. Kannað verður hvort hægt sé að hafa áhrif á öndun og súrefnisinntöku sjúklinga með því að breyta stellingu viðkomandi.

„Við prófum þá tilgátu að jafnvel áður en sjúklingur fer í öndunarvél, að hann sé lagður á grúfu bæti það súrefnisupptökuna og að komast megi hjá því að nota öndunarvél,“ sagði Naresh Punjabi, prófessor í smitsjúkdómalækningum, við RÚV í kvöld.

„Við reynum að stefna nokkrum sjúkrastofnunum saman til að gera klínískar rannsóknir sem hjálpa okkur að skilja þetta betur,“ sagði Punjabi einnig. Hann bætti því við að prófanir væru á frumstigi, þar sem kórónuveirufaraldrinum væri langt í frá lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×