Innlent

Fimm á spítala með Covid-19 og tveir á gjörgæslu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá upplýsingafundinum í dag. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er annar frá vinstri.
Frá upplýsingafundinum í dag. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er annar frá vinstri. Lögreglan

Fimm liggja nú inni á Landspítalanum með Covid-19-sjúkdóminn. Þar af eru tveir á gjörgæslu en ekki alvarlega veikir, þ.e. ekki í öndunarvel, þó að einkenni þeirra séu vissulega alvarleg. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag.

Þá er sterkur grunur um Covid-19-sýkingu hjá einum til viðbótar sem liggur inni á sjúkrahúsinu, að sögn Þórólfs. Í öllum tilfellum er um að ræða eldra fólk, á sextugs- og sjötugsaldri. Níu einstaklingar hafa jafnframt náð sér af veirunni, þ.e. hún greinist ekki í þeim lengur.

Kórónuveirusmit hefur nú verið staðfest í sex landshlutum og í öllum landshlutum eru einstaklingar í sóttkví. Þórólfur sagði að greinilegt væri að veiran væri í samfélaginu þótt hún væri ekki mjög útbreidd. Gera mætti ráð fyrir aukningu í útbreiðslu á næstunni.

Í tilkynningu á vef Landspítalans segir að starfsmenn spítalans í einangrun vegna kórónuveirunnar séu nú alls 17. Þá er 151 starfsmaður spítalans í sóttkví. Einnig segir að útskrifaðir sjúklingar vegna veirunnar séu samtals þrír.

Alls hafa 250 kórónuveirusmit nú verið staðfest á Íslandi. Þórólfur sagði að tæplega helmingur þeirra sem greinst hafa með veiruna hafi greinst í sóttkví. Það væru góðar fréttir. Alls eru 2422 í sóttkví og um 6500 sýni hafa verið tekin. Á fimmta hundrað hefur lokið sóttkví.


Tengdar fréttir

Þróunin þurfi ekki að koma á óvart

43 ný smit kórónuveiru greindust í gær og höfðu þá aldrei greinst fleiri á einum degi frá því að faraldurinn hófst hér á landi. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjón hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir þessa þróun ekki þurfa að koma á óvart.

Seðlabankinn dælir 60 milljörðum inn í bankana

Seðlabankinn dældi 60 milljörðum inn í bankakerfið í dag með afnámi sveiflujöfnunarauka viðskiptabankanna. Skilaboðin til þeirra um halda áfram útlánum til fyrirtækja og heimila eru skýr og að bankarnir greiði eigendum sínum engan arð á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×