Innlent

Fimm Íslendingar komnir úr einangrun eftir að hafa greinst með kórónuveiruna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans.
Már Kristjánsson er yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans. Vísir/Vilhelm

Að minnsta kosti fimm Íslendingar hafa verið útskrifaðir úr einangrun eftir að hafa greinst með kórónuveiruna sem veldur sjúkdómnum COVID-19 og fengið þar með grænt ljós frá heilbrigðisyfirvöldum um að þeir megi snúa aftur út í samfélagið.

Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans, í frétt á vef Ríkisútvarpsins.

Þar kemur jafnframt fram að smitsjúkdómadeild Landspítalans og sóttvarnalæknir hafi útfært skilgreiningar á því hvenær hægt sé að útskrifa fólk sem greinst hefur með veiruna.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis er verið að vinna að því að gefa þær leiðbeiningar út opinberlega og verða þær birtar á vefsíðu embættisins þegar þær liggja fyrir.

„Næstu daga munu fleiri útskrifast samkvæmt þessari skilgreiningu. En við erum að ráðleggja fólki að huga áfram vel að hreinlæti þrátt fyrir að hafa verið útskrifað,“ segir Már í samtali við RÚV.

Aðspurður hvort hægt sé að segja að þetta fólk sé læknað af COVID-19 svarar hann játandi, það sé hægt að segja það.

Alls hafa nú 224 greinst með kórónuveiruna hér á landi og eru meira en 2000 manns í sóttkví. Þá hafa meira en 2000 sýni verið tekin úr fólki en fyrsta tilfelli veirunnar greindist hér fyrir rúmum tveimur vikum eða þann 28. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×