Viðskipti erlent

Viðskipti stöðvuð rétt eftir opnun markaða vestanhafs, aftur

Samúel Karl Ólason skrifar
AP/Mary Altaffer

Öll viðskipti á bandarískum mörkuðum voru stöðvuð sjálfkrafa í fimmtán mínútur, skömmu eftir að markaðir opnuðu í morgun. Um sjálfvirkt viðbragð við mikilli lækkun vísitala er að ræða en Dow vísitalan lækkaði um 2.250 stig eða 9,7 prósent áður en viðskiptin voru stöðvuð.

Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði í gær stýrivexti sína niður í næstum ekkert og hét 700 milljarða dala innspýtingu í bandarískt efnahagslíf, um 95 þúsund milljarða króna, vegna áhrifa útbreiðslu kórónuveirunnar. Markmiðið var að draga úr áhrifum faraldursins á markaði en mikil lækkun hefur átt sér stað á verðbréfamörkuðum um heim allan á undanförnum dögum.

Sjá einnig: Rauðar tölur í Kauphöllinni við opnun markaða

Það sama var á teningnum fyrir viku síðan og þá voru viðskipti einnig stöðvuð. Það var þá í fyrsta sinn frá hruninu 2008.

Viðskipti voru einnig stöðvuð skömmu eftir opnun í brasilíu. Þá varð einnig mikil lækkun á mörkuðum í Asíu og í Evrópu í morgun.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar lækkuðu vísitölur í Evrópu og í Asíu um allt að tíu prósent og verð hráolíu sömuleiðis.

Leiðtogar G7 ríkjanna munu ræða saman í dag um stöðuna og fjármálaráðherrar Evrópu eiga sömuleiðis í viðræðum um það hvernig grípa má til aðgerða og hjálpa efnahagskerfum í gegnum þessa erfiðu tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×