Anderson hafði betur gegn Suljovic, 4-3, í 32-manna úrslitum HM í gær. Þrátt fyrir sigurinn var Anderson foxillur eftir leikinn.
Suljovic tók sér góðan tíma í allar sínar aðgerðir og hæg spilamennska hans fór mjög í taugarnar á Anderson. Hann var einnig pirraður yfir því að Suljovic skildi nota sitt borð á sviðinu í Alexandra höllinni.
„Það sem fólk horfði á var algjör skelfing, algjört grín,“ sagði Anderson. „Okkur var sagt hvaða borð við værum með. Ég var á vitlausu borði allan leikinn og hefði haldið að Sky hefði kveikt á því hvar ég ætti að vera og þetta hefði verið gert á réttan hátt.“
Leikur þeirra Andersons og Suljovic tók óhemju langan tíma og sá fyrrnefndi sagði að hann hefði eflaust skipt um stöð ef hann hefði verið á horfa á leikinn í sjónvarpinu.
„Horfðirðu á þriðja settið? Var hann hægur? Nei, hann var ekki hægur,“ sagði Anderson kaldhæðinn.
„Ef þetta er pílukast og hvernig það er spilað núna, góða skemmtun, ég hypja mig í burt eða fer í golf. Ég píni mig ekki aftur í gegnum þetta. Ég vil bara spila pílukast. Naustu þess að horfa á þetta? Aldrei. Ég er viss um að níutíu prósent þeirra sem voru að horfa skiptu um stöð og fóru að horfa á Coronation Street eða eitthvað. Ég hefði gert það. Ef þú tapaðir fyrir betri keppanda, tekurðu í spaðann á honum og heldur áfram. En þetta var algjör vitleysa.“
Anderson verður vonandi runnin reiðin þegar hann mætir annað hvort Jason Lowe eða Devon Petersen í sextán manna úrslitum á morgun.
Anderson hefur tvisvar sinnum orðið heimsmeistari í pílukasti (2015 og 2016). Á síðasta heimsmeistaramóti tapaði Anderson í sextán manna úrslitum fyrir Nathan Aspinall, 4-2.

HM í pílukasti er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. HM í pílukasti er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.