Innlent

Ritari Fram­sóknar­flokksins: „Erfitt að sjá Sjálf­stæðis­flokkinn fyrir sér í næstu ríkis­stjórn“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jón Björn Hákonarson er ritari Framsóknarflokksins og bæjarstjóri í Fjarðabyggð.
Jón Björn Hákonarson er ritari Framsóknarflokksins og bæjarstjóri í Fjarðabyggð. mynd/Facebook

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð og ritari Framsóknarflokksins, segir erfitt að sjá fyrir sér að Sjálfstæðisflokkurinn geti setið í næstu ríkisstjórn. Forystufólki flokksins „gangi illa að upplifa sig sem hluta af þjóðinni,“ og kveðst Jón Björn hafa áhyggjur af stöðu Sjálfstæðisflokksins og segir að augljósir brestir flokksins veiki hann til forystu í íslensku þjóðfélagi.

„Nú virðist sem þessi ríkisstjórn verði sú fyrsta sem er með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs til að sitja heilt kjörtímabil frá árinu 2007 og það er ekki framgöngu ráðherra og þingmanna þess flokks að þakka. Þingflokkurinn er ósamstæður og ósamtaka og hefur hluti hans verið við hlið Miðflokksins í stjórnarandstöðu í einstaka málum ríkisstjórnarinnar,“ skrifar Jón Björn í færslu á Facebook.

Hann líti svo á að andstaða einstakra þingmanna flokksins við sóttvarnaraðgerðir hafi einkennst af „öfgahyggju og ábyrgðarleysi.“

„Ráðherrar hafa þurft að segja af sér. Svo virðist einnig að forystufólki hans gangi illa að upplifa sig sem hluta af þjóðinni og lifa eftir sömu reglum og ætlast er til af okkur öllum núna á þessum snúnu tímum í lífi okkar. Þetta er ekki gott og í augnablikinu er erfitt að sjá Sjálfstæðisflokkinn fyrir sér í næstu ríkisstjórn.“

Ritari Vinstri grænna, hins samstarfsflokks Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, lýsti því í samtali við Vísi í dag að hún telji athæfi Bjarna Benediktssonar á Þorláksmessu, þegar hann sótti samkomu þar sem of margir voru saman komnir, vera að sínu mati tilefni til afsagnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×