„Þetta mál er óheppilegt í alla staði. En aðalatriðið er að það styttist í að það hefjist bólusetningar og þangað til vona ég að allir geti tekið þátt í því að virða sóttvarnir. Þá komumst við í gegnum þetta,“ segir Sigurður Ingi í samtali við fréttastofu.
Hann segist ekki viss um að atvikið hafi áhrif á ríkisstjórnarsamstarf Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.
„Ég er vissulega vonsvikinn yfir þessu en ég hef heyrt útskýringar fjármálaráðherra og meðtekið þær en ítreka að aðalatriðið er að horfa á stóru myndina. Við þurfum að komast í gegnum þetta saman. Bólusetning er handan við hornið og þangað til við erum komin í gegnum það ferli að þá verðum við öll að virða sóttvarnir.“
Telurðu atvikið hafa dregið úr trausti á ríkisstjórnina?
„Ég vona ekki en ég myndi alveg hafa skilning á því þar sem mjög margir ganga mjög upp í því að virða sóttvarnir og þetta er ekki góð fyrirmynd,“ segir Sigurður.
Þá segist hann aðspurður ekki telja þurfa neina eftirmála. „Mér finnst þegar menn hafa beðist afsökunar og útskýrt mál sitt að það eigi að vera svigrúm til þess að virða það og gefa fyrirgefningar.“