Innlent

Stormur og gul við­vörun síð­degis

Sylvía Hall skrifar
Gul viðvörun er á suðvestanverðu landinu síðdegis.
Gul viðvörun er á suðvestanverðu landinu síðdegis. Vísir/Vilhelm

Ansi hvöss suðvestanátt verður síðdegis og stormur suðvestantil á landinu. Gular viðvaranir hafa verið gefnar út en búist er við éljum eða slydduéljum á sama tíma vegna kólnandi veðurs.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Úrkomulítið verður lengst af norðaustantil og hiti um og yfir frostmarki. Þá dregur úr vindi í kvöld og má búast við norðlægri eða breytilegri átt á morgun og vindur á bilinu þrír til tíu metrar á sekúndu.

Þá er éljum spáð á morgun víða og frost á bilinu 0 til 10 stig en kaldast inn til landsins.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Norðan og norðaustan 15-23 m/s. Rigning eða slydda um norðanvert landið og hiti kringum frostmark, en snjókoma síðdegis. Þurrt sunnantil á landinu og hiti 1 til 5 stig.

Á mánudag:

Norðan 5-10 m/s en 10-15 m/s austantil á landinu. Dálítil él norðan- og austanlands, en bjartviðri um landið sunnan- og vestanvert. Frost 1 til 8 stig.

Á þriðjudag:

Suðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s. Dálítil snjókoma norðvestantil á landinu, annars skýjað með köflum. Frost 0 til 9 stig, kaldast í innsveitum norðanlands.

Á miðvikudag:

Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt, og bjart með köflum, en dálítl él norðaustan og austanlands. Frost 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Á fimmtudag (gamlársdagur):

Útlit fyrir hæga norðlæga átt. Víða bjartviðri, en skýjað á Norður- og Austurlandi. Kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×