Íslenski boltinn

Arna Sif til liðs við Skot­lands­meistara Glas­gow City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arna Sif í leik með Þór/KA sumarið 2020. Hún er nú á leið til Skotlands á láni.
Arna Sif í leik með Þór/KA sumarið 2020. Hún er nú á leið til Skotlands á láni. Vísir/Vilhelm

Arna Sif Ásgrímsdóttir gekk í dag til liðs við Skotlandsmeistara Glasgow City á láni frá Þór/KA. Þessu greindi skoska félagið frá á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Hin 28 ára gamla Arna Sif er þar með á leið í atvinnumennsku í þriðja sinn en hún lék með Kopparbergs/Göteborg FC árið 2015 og svo Verona á Ítalíu árið 2017. 

Var hún fyrirliði Þórs/KA nú á liðnu tímabili er liðið endaði í sjöunda sæti Pepsi Max deildarinnar. Þá hefur Arna Sif einnig leikið með Val hér á landi.

Samningurinn gildi út leiktíðina í Skotlandi sem á að ljúka í lok maímánaðar ef engar tafir verða vegna kórónufaraldursins.

Glasgow City – sem sló Val út úr Meistaradeild Evrópu í síðasta mánuði – hefur orðið Skotlandsmeistari 13 ár í röð en það virðist sem liðið fái alvöru samkeppni í ár. Eftir sjö umferðir er Glasgow City í öðru sæti með 18 stig líkt og topplið Rangers.

Þar sem síðarnefnda liðið vann toppslag liðanna í síðustu umferð 5-0 þá er Glasgow City með lakari markatölu og eflaust á Arna Sif að hjálpa til við að lappa upp á varnarleik liðsins. 

Sem stendur er hins vegar jólafrí í skosku úrvalsdeildinni en deildin hefst að nýju þann 17. janúar, þá spilar Arna Sif mögulega sinn fyrsta leik fyrir félagið er það mætir Celtic.

Alls hefur Arna Sif leikið 212 leiki í efstu deild hér á landi og gert í þeim 39 mörk. Þá á hún að baki tólf A-landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×