Sökum þessa verður ekki hægt að aflétta rýmingu á þeim húsum sem efst standa í byggðinni á jaðri rýmingarsvæðis. Rýming mun því standa óbreytt er varðar þau hús til 27. desember hið minnsta.
Ákvörðun um afléttingu rýmingar í öðrum húsum á rýmingarsvæði sem standa neðan við Múlaveg verður tekin síðar í dag. Kristján Ólafur Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Austurlandi, sagði í samtali við fréttastofu að tilkynning yrði send fyrir klukkan sjö í kvöld. Verði rýmingu ekki aflétt í kvöld er gert ráð fyrir að henni verði yfir höfuð ekki aflétt fyrr en í fyrsta lagi 27. desember.
Þetta var ákveðið á stöðufundi Almannavarna, Veðurstofu Íslands og Lögreglunnar á Austurlandi í morgun. Á fundinum var rætt um mikilvægi þess að íbúar fengju eins skýr svör og hægt væri hvað varðar aðgengi að húsum og hugsanlega rýmingu yfir jólin. Fyrirsjáanleiki er verðar næstu daga væri mikilvægur.
Íbúum, sem búa innan við Búðará og eiga hús á rýmingarsvæði, verður í dag gefinn kostur á að sækja nauðsynjar í hús sín. Þó er hvatt til þess að þeim ferðum verði stillt í hóf en þeir sem vilja þiggja boðið er bent á að gefa sig fram í Ferjuleiru á Seyðisfirði.
Veðurstofa Íslands hefur uppfært reitakort fyrir rýmingarsvæðið. Borholuþrýstingur fer minnkandi og koma á fyrir fleiri speglum í hlíðina til að ná fram betri mælingum.
Helstu verkefni í dag er vöktun á lokunarpóstum og aðstoð við fólk sem vill líta eftir eignum á rýmingarsvæði. Í forgangi er vinna við rafmagnsöryggi og húshitun. Á fundinum var einnig rætt um hjúkrunarheimilið og um leiðir til að koma því aftur í gagn. Tryggja þurfi að starfsfólks sé til reiðu áður en skjólstæðingar snúi aftur.