Innlent

Átta milljarða samningur um heimahjúkrun undirritaður

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Átta milljarða samningur um heimahjúkrun í Reykjavík var undirritaður í dag og er hann meðal annars til þess fallinn að fækka sjúkrahúsinnlögnum meðal aldraðra. Ekki er hægt að útskrifa 89 manns vegna skorts á hjúkrunarrýmum.

Heilbrigðisráðherrra og borgarstjóri undirrituðu samninginn en hann er viðbót við eldri samning um rekstur öldrunarteymis sem sinnir sérhæfðri heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða í heimahúsum.

„Þannig að það geti teymi lækna og hjúkrunarfræðinga komið inn á heimili til viðbótar við þá heimaþjónustu sem við höfum verið með í staðinn fyrir að öll svona frávik eða aukin veikindi leiði til þess að fólk þurfi að leita á spítalann,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Samningurinn er meðal annars til þess fallinn að fækka sjúkrahúsinnlögnum og vinna gegn þeim vanda sem skapast þegar ekki er unnt að útskrifa fólk af sjúkrahúsi að meðferð lokinni vegna skorts á úrræðum. 

Núna eru 89 með færni og heilsumat tilbúnir til útskriftar en eru inniliggjandi á vegum Landspítala vegna skorts á hjúkrunarrýmum.

Samningurinn tekur til fjögurra ára og er heildarkostnaður alls átta milljarðar.

„Reykjavíkurborg og heilbrigðisráðuneytið hefur verið algjörlega á sömu blaðsíðu með það hvers konar þjónustu er mikilvægast að byggja upp fyrir aldraða íbúa hér í borginni til þess að freista þess að koma til móts við aukinn vilja fólks til að búa lengi heima og njóta þeirra lífsgæða sem það felur í sér en geta fengið heilbrigðisþjónustu heim,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×