Innlent

Fá að bjóða upp á úti­æfingar eftir allt saman

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Stöðinni var gert að loka um helgina þar sem lögregla mat það svo að útiæfingar væru óheimilar.
Stöðinni var gert að loka um helgina þar sem lögregla mat það svo að útiæfingar væru óheimilar.

CrossFit-stöðvum er heimilt að verða með útiæfingar fyrir iðkendur sína samkvæmt núgildandi samkomutakmörkunum. Yfirþjálfari hjá CrossFit Kötlu hefur fengið þetta staðfest, en lögregla gerði stöðinni að loka um helgina og sagði útiæfingar óheimilar.

„Ég heyrði bara í lögreglunni, sem staðfesti að það hefði komið tölvupóstur um að þetta væri heimilt,“ segir Brynjar Helgi Ingólfsson, yfirþjálfari hjá CrossFit Kötlu. Hann hafi í kjölfarið fengið staðfestingu frá heilbrigðisráðuneytinu um að útiæfingar væru heimilar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Stöðvar mega bjóða upp á útiæfingar svo lengi sem fjöldatakmarkanir upp á tíu manns eru virtar og tveir metrar eru á milli fólks, líkt og samkomubann vítt og breitt um landið gerir ráð fyrir. Þá er sett það viðbótarskilyrði að engir aðrir en þjálfarar sæki búnað inn í stöðvarnar og komi með út.

Brynjar segir að aðstæður til útiæfinga séu með góðu móti hjá stöðinni.

Brynjar Helgi kveðst ánægður að geta hafið æfingar að nýju.Facebook

„Við erum bæði á bílaplaninu fyrir ofan hús og svo ef það er rigning erum við með bílastæði undir þaki, þannig að við getum verið í skjóli þar,“ segir Brynjar.

Hann bætir því við að útiæfingar hjá stöðinni hefjist aftur á morgun, eftir að henni var lokað á laugardag. Eins segist hann skilja að lögreglan hafi getað túlkað reglurnar á þann hátt að útiæfingar væru óheimilar.

„Það er allavega búið að úrskurða um þetta, þannig það er engin spurning um þetta núna,“ segir Brynjar og kveðst ánægður að geta hafið útiæfingar að nýju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×