Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, segir þetta vera sannleiksstund fyrir viðræðurnar. Það væri enn möguleiki að ná samningi en leiðin væri „afar þröng“ eins og staðan væri núna.
Heimildarmenn breska ríkisútvarpsins innan Evrópusambandsins fullyrða að ekkert gangi í viðræðunum. Fleira stæði út af en veiði í breskri lögsögu þar sem Bretar hefðu sett fram fleiri kröfur og enn ætti eftir að finna jafnvægispunkt upp á framhaldið að gera.
Þá segir heimildarmaður innan bresku ríkisstjórnarinnar að ómögulegt að ná samningi án þess að Evrópusambandið sýni sveigjanleika. Kröfur sambandsins séu ósamrýmanlegar því sjálfstæði sem Bretar stefna að.
„Við þurfum að ná réttum samningi sem byggir á þeim skilmálum sem virða vilja bresku þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir heimildarmaðurinn. „Við getum ekki samþykkt samning sem gerir okkur ókleift að stýra eigin landslögum og sjálfstæði.“
Boris Johnson forsætisráðherra hefur lofað því að halda viðræðunum áfram en gerði þann fyrirvara að enn ætti eftir að ná samkomulagi um mikilvæg atriði