Erlent

Flýta mati á bóluefni Moderna um viku

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti tísti nú eftir hádegi að bóluefni Moderna hefði verið samþykkt með „miklum meirihluta“.
Donald Trump Bandaríkjaforseti tísti nú eftir hádegi að bóluefni Moderna hefði verið samþykkt með „miklum meirihluta“. EPA/CJ GUNTHER

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) mun flýta mati á bóluefni frá Moderna . Fundurinn, sem áður átti að halda 12. janúar, fer fram 6. janúar í staðinn. Reynt verður að ljúka mati á bóluefninu á fundinum og þegar það liggur fyrir mun framkvæmdastjórn Evrópusambandsins reyna að gefa út markaðsleyfi á fáeinum dögum.

Þetta kemur fram á vef Lyfjastofnunar Íslands í dag. Þar segir að mat Lyfjastofnunar Evrópu á bóluefni Moderna gegn kórónuveirunni hafi gengið mjög vel fyrir sig. Í gær hafi EMA borist síðustu gögn sem þurfti til að hægt sé að ljúka mati á bóluefninu. Þetta sé fyrr en búist hafði verið við.

Þegar markaðsleyfi ESB liggur fyrir muni Lyfjastofnun Íslands vinna að kappi að því að gefa út íslenskt markaðsleyfi á sem allra skemmstum tíma. Vonir eru bundnar til að sú vinna taki aðeins fáeina daga.

Ráðgjafaráð Lyfjaeftirlits Bandaríkjanna, FDA, lagði í gær til að bóluefni Moderna fái neyðarleyfi stofnunarinnar. Þannig verði hægt að taka bóluefnið í almenna notkun í Bandaríkjunum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tísti nú eftir hádegi að bóluefni Moderna hefði verið samþykkt með „miklum meirihluta“. Dreifing á efninu hæfist tafarlaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×