Sport

Rússneskur Ólympíumeistari neyddur í þungunarrof

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anfisa Reztsova vann til gullverðlauna á þrennum Vetrarólympíuleikum (1988, 1992 og 1994).
Anfisa Reztsova vann til gullverðlauna á þrennum Vetrarólympíuleikum (1988, 1992 og 1994). getty/Allsport UK

Rússneski Ólympíumeistarinn Anfisa Reztsova segir að hún hafi verið neydd í þungunarrof fyrir Vetrarólympíuleikana í Calgary 1988.

Reztsova vann til þrennra gullverðlauna á Vetrarólympíuleikunum á ferlinum, meðal annars í skíðagöngu á Vetrarólympíuleikunum í Calgary 1988. En ef allt hefði verið eðlilegt hefði hún ekki keppt á leikunum þar sem hún varð ófrísk fyrir þá.

„Ég var neydd í þungunarrof því landið þurfti að vinna til verðlauna,“ sagði Reztsova í samtali við rússneskan vefmiðil.

Eftir að Reztsova varð ófrísk var hún kölluð á fund sovésku ólympíunefndarinnar.

„Í júní 1987 vorum við í æfingabúðum í Otepää. Það kom í ljós að bæði ég og Jelena Välbe vorum barnshafandi. Välbe mátti eignast barnið en ég var send til Moskvu þar sem þjálfarinn sagði að ég gæti ekki eignast barnið þar sem við þyrftum að vinna til verðlauna,“ sagði Reztsova.

„Við ræddum saman hjá sovésku ólympíunefndinni. Ég samþykkti að fara í þungunarrof ef ég fengi íbúð. Við maðurinn minn bjuggum hjá foreldrum mínum á þessum tíma.“

Reztsova eignaðist seinna fjórar dætur. Sú elsta þeirra, Daria, fylgdi í fótspor móður sinnar og keppti í skíðaskotfimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×