Fjögur eftirlitsskip breska sjóhersins verða í viðbragðsstöðu frá og með 1. janúar til þess að vernda fiskveiðisvæði Bretlands ef engir samningar nást milli Bretlands og Evrópusambandsins.
Heimildamenn Guardian í sjóhernum segja að viðbragðsáætlunin hafi verið skipulögð fyrir nokkru síðan. Þá er ekki langt síðan að eftirlitsskipaflotinn var stækkaður úr fjórum í átta skip. Það var gert að hluta til vegna mögulegra deilna ef samningar nást ekki fyrir áramót. Fréttastofa Guardian segir frá og líkir stöðunni við Þorskastríðin.
Skipin eru vel vopnum búin en ekki er gert ráð fyrir því að þau muni nota vopnin gegn evrópskum fiskveiðiskiptum. Þess í stað muni skipverjar fara um borð í báta sem grunaðir eru um að fara inn á bresk mið og gera þar leit ef nauðsynlegt er.
Þá verður eftirlitsskipunum heimilt að draga evrópska fiskveiðibáta í höfn í Bretlandi ef tilvikin eru talin alvarleg.
Fiskveiðiheimildir eru eitt helsta deilumál samningsnefnda Evrópusambandsins og Bretlands. Nást samningar ekki fyrir þann 31. desember mun Bretland yfirgefa innri markað Evrópu án fríverslunarsamnings. Þá mun evrópskum bátum vera bannað að veiða á breskum miðum og öfugt.