Innlent

Ungir jafnaðarmenn segja orðræðu Sigríðar Andersen hættulega

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ragna Sigurðardóttir er forseti Ungra jafnaðarmanna. Yfirlýsing var send fjölmiðlum vegna Landsréttarmálsins.
Ragna Sigurðardóttir er forseti Ungra jafnaðarmanna. Yfirlýsing var send fjölmiðlum vegna Landsréttarmálsins. Aðsend/Arnar

Ungir jafnaðarmenn segja í yfirlýsingu að það sé fullkomlega óboðlegt að Sigríður Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hafi verið gerð að formanni utanríkismálanefndar Alþingis eftir að hafa gerst brotleg í starfi.

Tilefni yfirlýsingarinnar er niðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu. Þar kemur fram hörð gagnrýni á alla þætti ríkisvaldsins sem að málinu kom. Landsréttardómararnir fjórir hafi ekki verið rétt skipaðir.

„Valdabrölt Sigríðar Á. Andersen er ekki einungis skattgreiðendum dýrkeypt, heldur hefur það grafið undan trausti almennings á íslensku dómskerfi, skapað réttaróvissu og niðurlægt íslenskt stjórnkerfi á alþjóðavettvangi.“

Þau segja Sigríði hafa breytt ferlinu um skipan Landsréttardómara í „óafsakanleg pólitísk hrossakaup.“

Þá finna Ungir jafnaðarmenn að málflutningi Sigríðar síðustu daga. Þau grafi undan Mannréttindadómstólnum og mikilvægi hans fyrir réttarvernd íslenskra borgara. Slík orðræða kjörins fulltrúa sé beinlínis hættuleg í lýðræðisríki. Slíkt verði að fordæma.

Þau segja Sigríði ófæra um að starfa í þágu almannahagsmuna og ekki treystandi sem valdhafa.

Ungir jafnaðarmenn gagnrýna þá viðbragðsleysi og virðingarleysi í garð MDE sem ríkisstjórnin hafi sýnt. Skorað er á stjórnarflokkana að axla ábyrgð og að bregðast við með afgerandi hætti.


Tengdar fréttir

Hefur alltaf séð mjög eftir „já“-inu

Fyrrverandi varaþingmaður Viðreisnar, sem sat á Alþingi þegar Landsréttarmálið var afgreitt snemmsumars 2017, segist alltaf hafa séð mjög eftir því að hafa greitt atkvæði með málinu. Þá segir hann Sjálfstæðisflokkinn hafa beitt aðra stjórnarflokka miklum þrýstingi í málinu á sínum tíma og lýsir hótunum um stjórnarslit „við minnsta tilefni“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×