Þingmenn munu þurfa að samþykkja frumvarpið þrisvar sinnum í viðbót áður en farið verður í nýjar kosningar.
Benny Gantz, varnarmálaráðherra og þingmenn í Bláhvíta bandalaginu studdu þó frumvarpið en Gantz og Bláhvítir eru í ríkisstjórn með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, svo líklegast eru dagar ríkisstjórnarinnar taldir.
61 þingmaður greiddi atkvæði með frumvarpinu og 54 gegn því.
Sex mánuðir eru síðan Gantz sveik þáverandi bandamenn sína og gekk til liðs við Netanjahú.
Yair Lapid, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, lagði frumvarpið fram og hann segir að fyrsta samþykkt þess sé ekki sigur. Heldur einungis fyrsta skrefið í átt að nýrri ríkisstjórn í Ísrael. Sú ríkisstjórn muni takast á við faraldur nýju kóronuveirunnar, efnahagsvandræði og ekki stofna til deilna á milli Ísraela, samkvæmt frétt Times of Israel.
Gantz sagði í gærkvöldi að hann myndi styðja frumvarpið og sagði hann ástæðuna vera að Netanjahú hefði framið „efnahagshryðjuverk“ með því að stöðva fjárlagafrumvörp fyrir þetta og næsta ár.
Án frumvarpsins sem samþykkt var í dag var fyrir útlit fyrir ríkisstjórnarslit vegna fjárlagafrumvarps fyrir 2020. Ríkisstjórnin hefur frest til 23. desember til að samþykkja fjárlög, annars verður þingi slitið sjálfkrafa og boðað til kosninga þann 23. mars.
Verði stjórnarandstöðu frumvarpið að lögum, tekur það forgang. Í frétt Times of Israel segir að líklegast verði kosningarnar haldnar í vor eða sumar.