Sport

Ruðningsheimurinn í sárum eftir andlát franskrar hetju

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christophe Dominici var vinsæll og farsæll leikmaður.
Christophe Dominici var vinsæll og farsæll leikmaður. getty/liewig christian

Franski ruðningskappinn Christophe Dominici lést í gær, 48 ára að aldri. 

Hann lést þegar hann féll niður af þaki yfirgefinnar byggingar í Parc de Saint-Cloud, nálægt París. Andlát hans er til rannsóknar.

Dominici var þekktur og vinsæll íþróttamaður og fjölmargir hafa minnst hans á samfélagsmiðlum og víðar.

„Svo mikil sorg. Christophe Dominici var stórkostlegur leikmaður, listamaður. Skyndilegt andlát hans er áfall,“ sagði Roxana Maracineanu, íþróttamálaráðherra Frakklands.

Dominici lék 67 landsleiki fyrir Frakkland. Hann átti m.a. stóran þátt í því að Frakkar unnu frægan endurkomusigur á Ný-Sjálendingum í undanúrslitum HM 1999. Í úrslitaleiknum laut Frakkland svo í lægra haldi fyrir Ástralíu.

Dominici varð fimm sinnum franskur meistari með Stade Francais en hann lék með liðinu í ellefu ár. 

Hann lagði skóna á hilluna 2008. Eftir að ferlinum lauk starfaði Dominici sem álitsgjafi í útvarpi og sjónvarpi.

Dominici var einnig efnilegur fótboltamaður og var m.a. á mála hjá Monaco. Honum og Lillian Thuram, sem varð heims- og Evrópumeistari með franska landsliðinu, var vel til vina.

Klippa: Ruðningsheimurinn í sárum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×