Innlent

Vilja jafna möguleika þeirra sem lokið hafa iðn- og starfsnámi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Unsplash/Jubal Kenneth Bernal

Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um háskóla bíður nú umsagna í samráðsgátt stjórnvalda. Markmið frumvarpsins er að jafna möguleika framhaldsskólanema sem hafa lokið prófi af svokölluðu þriðja hæfnisþrepi í framhaldsskóla til háskólanáms.

„Til jafns við aðgangsskilyrði „stúdentspróf“ kemur aðgangsskilyrði um að nemendur hafi lokið „lokaprófi af þriðja hæfnisþrepi“ og er þá vísað til aðalnámskrár framhaldsskóla. Þessari breytingu er ætlað að jafna stöðu nemenda sem hafa lokið list,- tækni- og starfsnámi af þriðja hæfniþrepi og þeirra, sem lokið hafa stúdentsprófi til inngöngu í háskóla,“ segir í kynningu um frumvarpið.

Þá segir að miklar breytingar hafi orðið á skipulagi og tilhögun framhaldsskólanáms og að frumvarpið gæti orðið háskólum hvatning til að móta enn frekar gagnsærri og skýrri aðgangsviðmið fyrir nemendur sem hafa lokið iðn- og starfsnámi.

„Nauðsynlegt er að lagt sé mat á raunverulega hæfni, en hæfniviðmiðin gera kleift að sjá hvaða hæfni og getu nemendur geti vænst að búa yfir við námslok. Skilgreind aðgangsviðmið verða þannig skýr og svara til krafna um undirbúning fyrir viðkomandi háskólanám.“

Umsagnafrestur er til 27. nóvember nk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×